Mun leggja línurnar í minnisblaði

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Afléttingaráætlun stjórnvalda verður með sama formi og þegar gripið hefur verið til takmarkana, það er að Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir skilar heilbrigðisráðherra minnisblaði með tillögum, hugleiðingum og greiningum og jafnvel möguleikum og stjórnvöld taka síðan ákvörðun út frá því. 

Þetta útskýrði Þórólfur í samtali við mbl.is að upplýsingafundi almannavarna loknum. Þórólfur gat ekki tjáð sig um efni minnisblaðsins að svo stöddu. Hann sagði þó að litið yrði til reynslu af fyrri afléttingum. 

„Ég held að við höfum verið með ákveðna línu, bæði í þeim aðgerðum sem við höfum verið að grípa til og hvernig við afléttum og svo framvegis og ég held að við ættum að nýta okkur það. Við þurfum að skoða það frá þeim sjónarhóli held ég,“ sagði Þórólfur.

Í samræmi við neðri vikmörk

Þórólfur segir að spálíkön sem unnið hafi verið eftir um þróun faraldursins hafi verið í samræmi við raunveruleikann, þó að raunveruleikinn endurspegli frekar neðri vikmörkin frekar en það sem litið var á sem líklegustu sviðsmynd. 

„Við höfum verið að fylgja þessum neðri vikmörkum, bæði varðandi þá sem liggja inni á legudeild og á gjörgæslu,“ segir Þórólfur.

Setti inn gamalt líkan

Spurður út í línurit sem að Ragnar Freyr Ingvarsson, fyrrverandi yfirlæknir á Covid-19 göngudeild Landspítalans, setti á Facebook-síðu sína í síðustu viku, segir Þórólfur að um gamla spá hafi verið að ræða sem ekki hafi verið í notkun. 

„Menn hafa verið að gera mismunandi líkön með mismunandi forsendum. Hann var með gamalt líkan sem enginn var að nota.“



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert