Afnám sóttkvíar grunn- og leikskólabarna vegna kórónuveirufaraldursins mun hafa þau áhrif að þær miklu smitrakningar sem verið hafa innan veggja skólanna leggjast af og þúsundir barna sem verið hafa í sóttkví undanfarna daga geta snúið til baka í skóla sína strax í dag. Formaður Skólastjórafélags Íslands segir að á móti kunni nýtt verklag að leiða til aukinna veikinda starfsfólks skólanna.
„Það verða vatnaskil í því hvernig við tökumst á við kórónuveirufaraldurinn í skólunum. Ég tel að það hafi verið farsælt að fylgja tillögum sóttvarnalæknis og ætla ekki að efast um þær núna. Verður spennandi að sjá hvert þetta leiðir okkur. Ef það leiðir til þess að við getum farið að lifa eðlilegra lífi með þessari veiru en áður er það jákvætt,“ segir Þorsteinn Sæberg, formaður Skólastjórafélags Íslands.
Verulegar breytingar hafa verið gerðar á reglum um sóttkví. Reglugerð þess efnis var samþykkt á ríkisstjórnarfundi í gær og tók gildi á miðnætti. Nú þurfa þeir sem eru útsettir fyrir smitum utan heimilis eingöngu að fara í smitgát og börn og unglingar eru algerlega undanþegin reglum um smitgát. Aftur á móti þurfa börn að sæta sóttkví ef smit er á heimili.
Þorsteinn Sæberg segir að breyttar áherslur muni hafa mikil áhrif í skólunum. Allir nemendur, aðrir en þeir sem eru smitaðir af Covid-19, munu mæta til skóla og eru ekki sendir hvað eftir annað heim í sóttkví vegna smita í bekknum.
Í minnisblaði Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis til heilbrigðisráðherra kemur fram að breytingar á sóttkví muni líklega leiða til aukinna smita í skólum og hjá fjölskyldum barna á leik- og grunnskólaaldri.
Varðandi hugsanlega aukin smit meðal starfsfólks segir Þorsteinn Sæberg að erfitt sé að átta sig á hversu mikil þau kunni að verða. Það séu hliðaráhrif af þeim aðgerðum sem stjórnvöld hafi ákveðið og þurfi að bregðast við þeim þegar og ef til þess kemur að starfsmenn veikist. Ef það fari í óefni og skólastarfi verði ekki fram haldið vegna þeirra þurfi að loka skólum.
„Þessi breyting, þessi einstaka breyting, felur í sér ákveðna eðlisbreytingu á þeim aðgerðum sem við höfum verið að beita í baráttunni við faraldurinn og endurspeglar breytt eðli veirunnar og breytt eðli faraldursins. Þannig að ég myndi telja að þessi aðgerð feli kannski í sér miklu stærri tíðindi en fólk áttar sig á því þetta hefur verið grundvöllur okkar aðgerða – þessi yfirgripsmikla sóttkví, einangrun og smitrakning – sem við höfum verið að beita,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra að loknum ríkisstjórnarfundi í gær.
„Ég held að þessi breyting muni létta mjög á þessu samfélagi,“ sagði Katrín og nefndi þá sérstaklega stétt kennara og skólastjórnenda sem hafa verið undir miklu álagi en um helmingur þeirra sem sæta nú sóttkví er börn á grunnskólaaldri.
Ekki var í gær tilkynnt um breytingar á samkomutakmörkunum en Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hyggst kynna afléttingaáætlun á föstudag. Hann sagði í gær að of snemmt væri að tjá sig um hana á þessari stundu.
Sóttvarnalæknir sagði í minnisblaði sínu að tilslakanir á ýmsum samfélagslegum aðgerðum, í kjölfar breytinga á reglum um sóttkví, myndu að líkindum leiða til fjölgunar smita í eldri aldurshópum. Mikilvægt væri þó að sú fjölgun leiddi ekki til fjölgunar á alvarlegum veikindum og spítalainnlögnum.