Við getum farið í afléttingar og afléttingaáætlun samkomutakmarkana vegna kórónuveirufaraldursins verður kynnt á morgun. Áætlun verður að vera á grundvelli upplýsinga og stöðunnar hverju sinni, sagði Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra á Alþingi.
Hann sagði ekki í hverju áætlunin fælist en sagði að stjórnvöld stæðu alltaf með heilbrigðiskerfinu og spítalanum og fara þyrfti með gát.
Ástæða ummælanna var sérstök um sóttvarnir og takmarkanir á daglegt líf í bólusettu samfélagi en Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar, var málshefjandi.
Sigmar sagði að þrátt fyrir mikinn fjölda smita væri staðan á spítalanum góð og að fáir þyrftu að leggjast þar inn vegna veirunnar. Við slíkar aðstæður væri algjörlega óviðunandi að viðhafa jafn ströngum samkomutakmörkunum eins og eru í gildi núna.
„Verið er að boða afléttingaráætlun í ríkisstjórn á morgun. Við höfum ekki enn séð efnisatriði hennar en þó liggur alveg fyrir afstaða formanns Sjálfstæðisflokksins um það að lagaskilyrði og forsendur fyrir þeim hörðu takmörkunum sem enn eru í gildi séu brostnar. Ef ekki á að létta þeim strax af þjóðinni, af atvinnufyrirtækjunum og fólki sem er í fyrirtækjarekstri, menningarlífinu og veitingageiranum þá er sú spurning áleitin hvort hæstvirt ríkisstjórn sé í raun og veru að viðhalda ástandi sem er ekkert annað en lögbrot og brot á grundvallarréttindum fólks. Staðan í faraldrinum er allt önnur en hún hefur verið hingað til. Þetta nýja afbrigði gerbreytir stöðunni,“ sagði Sigmar.
Willum sagði að vissulega væri staðan gjörbreytta og þess vegna væri boðar til afléttingaáætlunar. Það þyrfti þó að gera á grundvelli upplýsinga og fylgja stöðu hverju sinni.
„Ég verð að minna á að við erum enn með almannavarnir á neyðarstigi og spítalann á neyðarstigi. Þess vegna hefur verið gripið til fjölmargra aðgerða til að létta undir með spítalanum,“ sagði Willum.