Stjórnvöldum „slétt sama“ um menntskælinga

Óþekkjanlegir grímuklæddir nemendur í Verslunarskólanum.
Óþekkjanlegir grímuklæddir nemendur í Verslunarskólanum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fjölmargir mennta- og framhaldsskólanemendur urðu fyrir vonbrigðum í gær er ríkisstjórnin tilkynnti um fyrirhugaða afléttingaráætlun, sem gerir ráð fyrir að sóttvarnaraðgerðum verði aflétt á um það bil sex til átta vikum.

Flestir nemendur sem útskrifast í vor hafa einungis upplifað eina heila skólaönn án sóttvarnaraðgerða og hafa nokkrir nemendur gagnrýnt áætlunina sem gerir þeim einungis kleift að fá eðlilegt félagslíf tæpum tveimur mánuðum fyrir útskrift.

Á meðal þeirra sem hafa gagnrýnt afléttingarnar er Kári Freyr Kristinsson, forseti nemendafélags Verzlunarskóla Íslands. Hann segir stjórnvöld sýna með ákvörðun sinni um afléttingar „hversu slétt sama þeim er um menntskælinga og félagslíf þeirra“.

Menntskælingar hafi ekki sterka rödd

„Ég er búinn að vera mjög lengi ósáttur með hversu lítið sé tekið tillit til okkar menntskælinga og við höfum ekki eitthvað platform eða sterka rödd í samtalinu til þess að tjá okkur um þetta,“ segir Kári Freyr í samtali við mbl.is

Kári Freyr Kristinsson, forseti nemendafélags Verzlunarskóla Íslands.
Kári Freyr Kristinsson, forseti nemendafélags Verzlunarskóla Íslands. Ljósmynd/Aðsend

„Þannig að ég tók bara af skarið og ákvað að tweeta þessu og vissi ekkert hvernig viðbrögðin yrðu. Síðan hefur þetta mjög sterkan hljómgrunn meðal jafnaldra og þá komst ég að því að það eru fleiri sem eru á sömu skoðun og ég.“

Kári bætir við að nemendur hefðu byggt upp töluverðar væntingar fyrir afléttingum og að þó svo að einhverjum takmörkunum hafi verið aflétt haldi núgildandi skólareglugerð áfram og að miðað við hana verði ekki hægt að halda úti félagslífi í skólum.

„Eins frábært og það er að það sé komin aðgerðaráætlun fyrir afléttingar þá eru sex til átta vikur ansi langur tími fyrir okkur sem vorum á fyrsta ári þegar þetta byrjaði. Við erum eiginlega búin að vera að bíða í tvö ár eftir því að fá að fara aftur í eðlilegt menntaskólaár og sex til átta vikur er langur tími.“

Vanti líf í skólann

Að sögn Kára hefur ástandið mikil áhrif á nemendur og segir hann að það vanti töluverðan drifkraft í fólk. Engin borð eru uppi í matsal skólans, það sé verulega lítið um að vera í skólanum og því sé ekki mikið eftir sem drífi fólk áfram.

Hann segir stemminguna í skólanum vera skrýtna, þó svo að skólinn sé fullur af fólki að þá vanti líf í hann.

„Ég held að fólkinu líði ekkert svakalega vel, miðað við það sem að ég hef heyrt að þá er einhvern veginn allur kraftur farinn úr fólki, það eru allir orðnir svo daufir og það vantar allan drifkraft í fólk.

Við erum náttúrulega þakklát fyrir að vera ekki heima í fjarnámi en maður spyr sig hvað eru menntaskólaárin án félagslífsins eins og þetta er núna. Það að einungis læra eru ekki bestu minningarnar myndi ég halda, miðað við hvernig þetta hefur alltaf verið.“

Fleiri hafa tekið undir með Twitter-færslu Kára, þar á meðal Agnar Már Másson, forseti Framtíðarinnar, nemendafélags í Menntaskólanum í Reykjavík og Jón Bjarni Snorrason, formaður nemendafélags Borgarholtsskóla.

Enn fleiri hafa síðan tjáð sig á samfélagsmiðlum um stöðu framhalds- og menntaskólanemenda.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert