Breytt fyrirkomulag sóttkvíar sem tók gildi síðasta miðvikudag hefur minnkað álag á starfsemi sýnatökunnar við Suðurlandsbraut umtalsvert, að sögn Ingibjargar Salóme Steindórsdóttur, verkefnastjóra hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Enn er þó of snemmt að segja til um hvort að álagið muni koma til með að aukast aftur samhliða afléttingum.
Fyrir viku kynnti heilbrigðisráðherra nýja reglugerð um sóttkví sem kvað á um að þeir sem væru útsettir fyrir smiti utan heimilis yrðu ekki lengur gert að sæta sóttkví með tilheyrandi PCR sýnatöku. Þess í stað færu þeir í smitgát.
Að sögn Ingibjargar má áætla að um helmingur þeirra sem hefðu þurft að fara í PCR-sýnatöku samkvæmt fyrirkomulaginu sem var í gildi fyrir viku, hafi losnað við að fara í skimun.
„Það var ekkert rosalega mikið að gera á miðvikudag og fram yfir helgi. Það jókst aðeins í gær en á mánudögum er yfirleitt mikið að gera,“ sagði Ingibjörg.
Starfsfólk sýnatökunnar hefur nýtt tímann sem gafst í síðustu viku í verkefni sem hafa fengið að sitja á hakanum þegar álagið var sem mest.
„Við erum búin að taka til og þrífa hátt og lágt það sem við höfum ekki komist í. Svo bara sjáum við til hvað verður.“
Ingibjörg segir nú eiga eftir að koma í ljós hvort að álagið muni koma til með að aukast aftur vegna afléttinganna. Gæti þá smitum fjölgað hratt þó svo að veikindin af völdum Ómíkron-afbrigðisins séu vægari að jafnaði.