Heit umræða var á Alþingi í dag þar sem þingmenn úr Viðreisn, Pírötum, Flokki fólksins og Samfylkingunni tóku til máls og sögðu Útlendingastofnun enn neita að afhenda þinginu umsóknir um ríkisborgararétt, að beiðni innanríkisráðuneytsins.
„Staðan núna er sú að stjórnvöld neita enn að afhenda þinginu umsóknir um ríkisborgararétt, sem þeim ber, ásamt þeim gögnum sem þeim eiga að fylgja,“ sagði Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata, á þingi í dag.
Hún sagðist vera komin í þriðja sinn í pontu til að ræða þetta sama mál.
„Þessu neita þau staðfastlega og ráðherra kemur fram í fjölmiðlum og staðfestir þá neitun ítrekað.“
Arndís sagðist hafa óskað eftir því fyrir nokkru síðan að forseti skærist í leikinn, til að tryggja virðingu þingsins, og að hann hafi kvaðst ætla verða við því.
Arndís sagði allsherjar- og menntamálanefnd vera einhuga um að biðja ráðherra um að koma á sinn fund til þess að ræða málið og fá skýringar á þessu framferði stjórnvalda gagnvart þinginu.
Jón Gunnarsson innanríkisráðherra hafi þó ekki séð sér fært að koma fyrir nefndina fyrr en eftir tæpar tvær vikur.
„Á meðan bíða tugir einstaklinga í algjörri óvissustöðu um framtíð sína um leyfi þeirra til þess að vera hér á landi í öryggi og um það sem á eftir kemur.“
Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar, tók einnig til máls þar sem hún lýsti stöðunni sem ótækri. Hún sagði eina af undirstofnunum ríkisins vera að brjóta lög varnar því að Alþingi geti uppfyllt sínar lögbundu skyldur.
„Ég velti fyrir mér í hvaða stöðu við erum komin með hið háa Alþingi ef að við stöndum hér núna í pattstöðu með þetta mál. Lög eru brotin og við virðumst, Alþingi, ekki hafa úrræði,“ sagði hún.
Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar, sagði í máli sínu ekki einungis stjórnarandstöðuna kalla eftir upplýsingum heldur hafi forsætisráðherra tjáð sig með afgerandi hætti um það að þingið eigi rétt á upplýsingum og að framkvæmdarvaldið þurfi að fara eftir því þegar um er beðið.
Hann sagði fjármálaráðherra hafa gert slíkt hið sama og að forseti Alþingis hafi tekið undir að það þurfi að taka málið upp. Þá sé formaður allsherjar- og menntamálanefndar líka þeirrar skoðunar, þar sem þarna sé ráðuneyti og stofnun, eða ráðherra og stofnun, að taka sér vald sem það hefur ekki.
„Maður hlýtur að velta fyrir sér hver geta úrræði Alþingis verið þegar að þessi staða er uppi. Enginn svör koma um hvað muni taka við, við erum áfram föst í einhverju nuddi hér í þessum sal við framkvæmdavaldið þegar að lögin eru algjörlega skýr.“
„Undanfarnar vikur höfum við orðið vitni að valdaráni stofnunar sem fær boð frá ráðherra um að sniðganga Alþingi,“ sagði Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar. Hún bætti við að með þessu væri Alþingi meinað að gera það sem lögin segi til um að það eigi að gera.
Helga Vala sagðist einnig hafa skorað á allsherjar- og menntamálanefnd að auglýsa eftir umsóknunum um ríkisborgararétt, og hvatti þá sem skiluðu sínum umsóknum til Útlendingastofnunar að skila þeim beint til Alþingis.