Rúmlega 20 stiga frost mældist í Stafholtsey í innsveitum Borgarfjarðar og við Brú á Jökuldal í nótt. Á Sandskeiði fór frostið niður í rúm 19 stig.
Að sögn Helgu Ívarsdóttur, veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands, verður kalt út þessa viku og áfram er búist er við talsverðu frosti í innsveitum landins. Loftslagið við sjóinn verður aðeins mildara. Til að frostið geti orðið eins mikið og raun ber vitni þarf að vera algjört logn.
Á mánudaginn er von á djúpri lægð og hvetur Helga fólk til að fylgjast með veðurspá. Stormur verður eða rok með snjókomu en spáin fyrir ákveðin landsvæði verður gefin út þegar nær dregur.