Við hverju má búast í næstu viku?

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra eftir ríkisstjórnarfund í dag.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra eftir ríkisstjórnarfund í dag. mbl.is/Unnur Karen

Í morgun sagði Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra líklegt að hægt væri að flýta skrefi tvö í áður kynntri afléttingaráætlun stjórnvalda þegar kemur að afléttingu sóttvarnaaðgerða. En hvað þýðir það nákvæmlega og má jafnvel búast við að afléttingar verði enn hraðari? Willum ræddi við mbl.is nánar eftir fundinn þar sem hann fór betur yfir þessi atriði.

Eins og staðan er í dag gildir almenn regla um 50 manna samkomutakmarkanir. Undantekning er fyrir allt að 500 á sitjandi viðburðum, en þá þarf að uppfylla ákveðin skilyrði, meðal annars grímuskyldu og fleira. Þá er í gildi eins metra nándarregla, sem þó á ekki við á sitjandi viðburðum. 50 gestir mega vera á veitingastöðum, skemmtistöðu og krám, en gestir mega þó ekki koma inn eftir klukkan 23 og þurfa að fara fyrir miðnætti.

Þegar er búið að flýta ákveðnum afléttingum miðað við afléttingaáætlunina, svo sem eins metra reglu á sitjandi viðburðum og þá sagði Willum í dag að stefnt væri að því að stytta tíma í einangrun úr viku niður í fimm daga á mánudaginn. Spurður hvort það myndi líka gilda fyrir þá sem væru byrjaðir í einangrun á mánudaginn sagði hann svo vera.

Skref í næstu viku þýðir fullt afnám um mánaðamótin

Í afléttingaráætluninni var miðað við að skref tvö væri tekið 24. febrúar. Willum er hins vegar bjartsýnn að það verði talsvert fyrr. Sagði hann eftir fundinn að hann teldi að hægt væri að stíga skrefið tveimur vikum fyrr. „Mér sýnist staðan vera að vinna með okkur,“ segir Willum. Hefur hann þegar sent sóttvarnalækni afléttingatillögur miðað við skref númer tvö í næstu viku. „Við verðum að leyfa sóttvarnalækni að fara yfir það og út frá því getum við tekið ákvörðun,“ segir Willum, en þar vísar hann til þess að sóttvarnalæknir muni gera heildstætt áhættumat.

Willum segir að þetta geti þýtt að fullar afléttingar, sem áformaðar voru 14. mars, geti því orðið hálfum mánuði fyrr en áður hafði verið ætlað. „En það þarf að stíga varlega til jarðar og taka mið af áhættumati sóttvarnalæknis,“ segir hann. Þetta þýðir að fullar afléttingar gætu átt sér stað um mánaðamótin.

Willum segist þegar hafa sent sóttvarnalækni afléttingatillögur og bíður eftir …
Willum segist þegar hafa sent sóttvarnalækni afléttingatillögur og bíður eftir heildstæðu áhættumati vegna þeirra. mbl.is/Unnur Karen

Segir afléttingaráætlun hér í samræmi við önnur lönd

Á Norðurlöndunum hefur annað hvort þegar verið stigið skref um fullar afléttingar eða afléttingaáætlun sett upp. Er þar gengið nokkuð hraðar í afléttingum en hér, ef frá er talið í Finnlandi.. Í Danmörku var öllu aflétt á mánudaginn. Í Svíþjóð er stefnt að fullri afléttingu 9. febrúar og í Noregi 17. febrúar. Í Finnlandi miða aðgerðir við stórt skref í afléttingu 14. febrúar og fulla afléttingu um mánaðamótin, en það gæti þá þýtt sama tímaramma og hér á landi ef ætlanir Willums ganga eftir.

Spurður hvort ekki væri rétt að fara hraðar í afléttingar hér miðað við fordæmi frá Norðurlöndunum segir Willum að skoðaður hafi verið samanburður á milli þjóða og að sér sýnist afléttingaráætlun hér vera í nokkuð sambærilegum takti eftir því hvar þjóðirnar eru staddar í síðustu bylgju faraldursins.

Undanfarin misseri hefur nokkuð verið um að skiptar skoðanir séu í ríkisstjórn um hversu hratt eigi að fara í afléttingar. Spurður hvort samstaða hafi verið á ríkisstjórnarfundinum í dag um að hraða ekki afléttingum svaraði Willum því ekki beint en sagði að ríkisstjórnin hefði kynnt aðgerðaáætlunin sameiginlega fyrir viku og þannig sé það áfram. Þá sé hlustað á sérfræðinga og skref stigin í samræmi við áhættumat hverju sinni.

Of snemmt að segja nánar til um hvað felist í næsta skrefi

Spurður nánar út í afléttingarnar sem stefnt er að í næstu viku segir Willum að of snemmt sé að segja alveg til um það en að mögulega væri jafnvel hægt að stíga stærri skref en áður var talað um. Samkvæmt afléttingaáætluninni var í öðru skrefi gert ráð fyr­ir að hækka fjölda­tak­mark­an­ir úr 50 í 200 manns og að á sitj­andi viðburðum verði heim­ilt að hafa þúsund manns í hólfi. Nándarreglan er áfram einn metri og grímuskylda þar sem ekki er hægt að viðhafa nálægðarmörk, bæði utan- og innandyra. Þá átti að heim­ila sund­stöðum, skíðasvæðum og lík­ams­rækt­ar­stöðvum að hafa opið fyr­ir 100% af há­marks­fjölda. Einnig að íþrótta­keppn­ir með þúsund áhorf­end­um verði heim­ilaðar og veit­ingastaðir og krár fái að hafa opið til miðnætt­is og hleypa fólki inn til miðnætt­is. Að lokum var stefnt að því að fella reglum um einangrun og sóttvkí niður.

Eins og fyrr segir hefur Willum þegar tilkynnt að rýmka eigi einangrunarreglur á mánudaginn. Spurður hvort komi til greina að afnema grímuskyldu líka í næstu viku vildi Willum ekki segja til um hvort það væri hluti af þeim áformum sem hann og sóttvarnalæknir væru að skoða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka