Nær öll störf verða án staðsetningar

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nær öll störf sem auglýst verða í ráðuneyti Áslaugar Örnu Sig­ur­björns­dótt­ur, há­skóla-, iðnaðar- og ný­sköp­un­ar­ráðherra, munu bjóða upp á það sem þekkt er í daglegu tali sem störf án staðsetningar. Ráðuneytið er fyrsta ríkisstofnunin til að gefa skýrt út að nær öll störf verði án staðsetningar.

Þetta kemur fram í grein Áslaugar Örnu í Morgunblaðinu í dag.

„Við uppbyggingu nýs ráðuneytis er mikilvægt að hugsa hlutina upp á nýtt, horfa á myndina með öðrum augum en áður, huga að nýsköpun í stjórnsýslu, vera framsækin og bjóða upp á sveigjanleika sem nýtist bæði starfsmönnum ráðuneytisins og þeim aðilum sem ráðuneytið þjónar.

Nýtt ráðuneyti þarf líka að taka mið af nýjustu tækni og þeim möguleikum sem í boði eru. Þess vegna munu nær öll störf sem auglýst verða í ráðuneytinu bjóða upp á það sem við þekkjum í daglegu tali sem störf án staðsetningar. Framtíðarstarfsmenn ráðuneytisins geta þannig búið á höfuðborgarsvæðinu eða á landsbyggðinni. Það er mikill fengur í því að geta starfað fyrir ráðuneyti en hafa fjölbreytt val um búsetu,“ segir í grein Áslaugar Örnu.

Gæði ráðuneyta ekki talið í fermetrum

Áslaug telur að með því að veita fólki þann möguleika að starfa án staðsetningar sé hægt að efla landsbyggðina og gera atvinnulífið fjölbreyttara.

„Ef það er eitthvað sem við getum lært af faraldrinum sem við höfum átt við sl. tvö ár þá eru það tækifærin sem við sjáum til að starfa á ólíkum starfsstöðvum. Gæði ráðuneyta eru ekki talin í þeim fermetrum sem þau taka í skrifstofuhúsnæði í miðbæ Reykjavíkur, heldur í afköstum og þeim áhrifum sem þau hafa á daglegt líf okkar, í þessu tilviki á menntakerfið, atvinnulífið, fjárfestingar og þróun í nýsköpun, lausnir í iðnaði og þannig mætti áfram telja. Skýrar leikreglur og skilvirk þjónusta er það sem skiptir máli," segir einnig í greininni. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert