Mikilvæg gögn hafi borist seint til lögreglu

Lögreglan að störfum við Þingvallavatn.
Lögreglan að störfum við Þingvallavatn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Útlit er fyrir að mikilvæg gögn vegna leitarinnar að flugvélinni TF-ABB sem fórst í Þingvallavatni síðastliðinn fimmtudag, hafi ekki borist stjórnendum leitarinnar fyrr en daginn eftir að þau bárust björgunarsveitarmönnum.

Fréttablaðið greinir frá því að klukkan 19 á fimmtudagskvöld hafi það fengið mynd úr leitarforritinu Find My iPhone sem sýndi rakningu á farsíma Bandaríkjamannsins Josh Neuman, eins þeirra sem var um borð í vélinni.

Fylgdi það sögunni að gögnin væru þegar komin í gagnagrunn björgunarsveita og að þau hafi gengið manna á milli í flugheiminum hérlendis.

Frá leitinni á Þingvallavatni.
Frá leitinni á Þingvallavatni. mbl.is/Óttar

Það var þó ekki fyrr en morguninn eftir sem stjórnendur leitarinnar sögðust hafa fengið ný gögn frá erlendu símafyrirtæki og hófst þá mikil leit í Ölfusvatnsvík sem varð til þess að flugvélin fannst skömmu fyrir miðnætti sama dag.

Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, segir í samtali við blaðið að gögnin hafi borist lögreglunni aðfaranótt föstudags og kveðst ekki vita af hverju þau bárust ekki fyrr.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert