Skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka hf. var tekin fyrir á fundi ríkisstjórnar í dag.
Þá var framhald á sölu eignarhluta ríkisins í bankanum einnig á dagskrá, að því er fram kemur í tilkynningu frá Stjórnarráðinu.
Þann 20. janúar lagði Bankasýsla ríkisins fram tillögu til fjármála- og efnahagsráðherra um að stofnunin fái heimild til að selja alla eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka hf. í nokkrum áföngum. Yrði það gert í samráði við ráðherra um skiptingu þeirra og tímasetningar.
Var óskað eftir að heimildin myndi gilda til og með 31. desember 2023. Væri það í samræmi við fjárlög ársins 2022 en í forsendum fjárlagafrumvarpsins var gert ráð fyrir að eignarhlutur ríkissjóðs í Íslandsbanka verði seldur að fullu á næstu tveimur árum.