„Þetta er eitthvað sem allir bjuggust við og Þórólfur hefur lengi sagt að þetta væri það sem beðið væri eftir,“ segir Hjördís Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi almannavarna, um mikinn fjölda kórónuveirusmita síðastliðinn sólarhring.
2.252 greindust með Covid-19 innanlands síðastliðinn sólarhring og 33 liggja nú inni á spítala með Covid-19, þar af 19 vegna veikinda í kjölfar Covid-19-sýkingar. Tveir eru á gjörgæslu vegna Covid-19, báðir í öndunarvél. Aldrei hafa fleri greinst á einum sólarhring hér á landi.
Hjördís segir að þessar háu smittölur breyti ekki áformum almannavarna eða tillögum Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis um afléttingar.
„Það verður áfram horft í álag á spítalanum, ef hann ræður við þetta þá er þetta í lagi,“ segir Hjördís.