Mesta sandfokið í 28 ár

Allt svart af sandi í Vík í gær.
Allt svart af sandi í Vík í gær. mbl.is/Jónas Erlendsson

„Þetta er ekkert eins og það var,“ segir Bryndís Harðardóttir, íbúi í Vík, um sand­fokið sem gekk yfir þorpið í óveðrinu á mánudag. Meira hafi fokið hér áður fyrr og nefnir Bryndís sérstaklega fok árið 1994 í því samhengi.

Mik­ill sjór og sand­ur gengu upp á land í Vík í Mýr­dal í óveðrinu í byrjun vikunnar og var sandfok mikið, sér­stak­lega vest­an­meg­in í bæn­um. 

Líklega sé um mesta sandfok að ræða í 28 ár en Bryndís, sem hefur búið í þorpinu frá árinu 1983, segir að þá hafi ástandið verið mun verra.

Hús Bryndísar eftir sandfokið 1994.
Hús Bryndísar eftir sandfokið 1994. mbl.is/Jónas Erlendsson

„Þetta var miklu, miklu verra áður. Þá kom meira magn af sandi en það er búið að græða svo mikið upp síðan þá,“ útskýrir Bryndís en landgræðsla og heimafólk hafa unnið að því að græða upp sandinn.

Í umfjöllun Morgunblaðsins um sandfokið í mars 1994 er einnig rætt við Bryndísi. Þá brugðu hún og maður hennar á það ráð að smyrja koppafeiti á rúðurnar í húsi sínu til að verja þær skemmdum.

Hún segir að elstu menn tali um sandfok árið 1970 en hún geti ekkert sagt til um það hafandi flutt í þorpið 13 árum síðar.

Horft yfir Vík árið 1994.
Horft yfir Vík árið 1994. mbl.is/Jónas Erlendsson

Bryndís segir að afleiðingar svona mikils sandfoks verði sjáanlegar í þorpinu fram á vor. 

„Þetta lagast ekki fyrr en með gróðrinum. Við verðum með þetta fjúkandi yfir okkur fram á vor, það er náttúrulega mikill sandur í þorpinu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert