Það stefnir í að í sumar sigli fleiri skemmtiferðaskip hringinn í kringum Ísland en nokkru sinni fyrr. En eitt hefur ekki breyst síðan þessar siglingar hófust sumarið 2015. Vegna gildandi tollalaga geta Íslendingar ekki tekið sér far með þessum skipum.
Þegar farþegaskið Ocean Diamond hóf hringferðir um Ísland fyrir sjö árum lýstu ráðamenn því yfir að vert væri að endurskoða reglurnar enda hafa margir Íslendingar lýst áhuga á því að taka sér far með þessum skipum, sem í dag eru jafnan kölluð leiðangursskip.
Morgunblaðið sendi í fyrrasumar fyrirspurn til fjármálaráðuneytisins um stöðu málsins. Fengust þau svör þar að málið væri til skoðunar í ráðuneytinu.
Í síðasta mánuði sendi Morgunblaðið nýja fyrirspurn og fékk eftirfarandi svar: „Málið er enn til skoðunar í ráðuneytinu og liggur ekki fyrir hvenær henni lýkur. Það hefur snertiflöt við ýmis atriði sem varða m.a. tollfrelsi erlendra farþegaskipa, samkeppnisstöðu innlendra gistihúsa og veitingastaða gagnvart sölu á tollfrjálsum veitingum um borð í erlendum farþegaskipum í innanlandssiglingum og hugsanlegri misnotkun að öðru leytinu til.“ Telur ráðuneytið ekki líkur á því að afgeiðsla málsins klárist fyrir komandi sumar.
Íslendingum býðst að taka sér far með skipunum í erlendri höfn, þegar þau leggja af stað til Íslands en íslensk tollalög koma í veg fyrir að hægt sé að fara um borð hér á landi og sigla hringinn í kringum landið. Íslendingar þyrftu að fara um borð í skipin utan 12 mílna lögsögu til að geta keypt þar tollfrjálsan varning.
Guðmundur Kjartansson, sem gerir út Ocean Diamond, sagði í viðtali við Morgunblaðið sumarið 2017 að áherslur fyrirtækisins til þessa hafi verið á markaðssetningu erlendis en vonast þó til að stjórnvöld muni breyta þessu með tíð og tíma. Allra vilji í stjórnkerfinu virðist standa til þess.
Nánar má lesa um málið í Morgunblaðinu.