Marta Guðjónsdóttir gefur kost á sér í  annað sætið

Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.

Marta Guðjónsdóttir gefur kost á sér í annað sætið í prófkjöri sjálfstæðismanna í Reykjavík, vegna borgarstjórnarkosninganna í vor.

Marta hefur verið borgarfulltrúi frá árinu 2017, en hún sat sem varaborgarfulltrúi á árunum 2006-2017. Marta hefur setið í borgarráði og helstu ráðum borgarstjórnar. Hún situr nú í skipulagsráði, forsætisnefnd og stjórn Faxaflóahafna og er varaforseti borgarstjórnar. Þá var Marta formaður Varðar 2007-2010.

„Ég hef einlægan áhuga á því að fá að vinna áfram að stefnumálum Sjálfrstæðisflokksins í borgarstjórn og snúa frá gjaldþrota stefnu núverandi meirihluta,“ segir Marta í framboðstilkynningu sinni, en þar setur hún fram stefnumál sín í fimm liðum. 

Í fyrsta lagi segir Marta að það þurfi aðhald í rekstri og virðingu fyrir framlagi skattborgara „Snúa verður frá óheyrilegri skuldasöfnun, sem er að sliga rekstur borgarinnar, og kemur m.a. fram í vanrækslu á viðhaldi fasteigna eins og skólum og leikskólum, skertri þjónustu og hærri sköttum.“

Vill heildstæða samgöngustefnu og raunhæfar lausnir 

Þá vill Marta heildstæða samgöngustefnu fyrir alla ferðamáta. „Núverandi samgöngustefna hægir á umferð með tilheyrandi tímaskatti sem nú nálgast tveggja vikna vetrarfrí launþega, eykur mengun og dregur úr umferðaröryggi. Meirihlutinn hefur jafnframt komið í veg fyrir lagningu Sundabrautar og tafið aðrar nauðsynlegar samgöngubætur. Þessari þróun þarf að snúa við með heildstæðri samgöngustefnu fyrir alla ferðamáta sem lætur ekki stofnbrautir sitja á hakanum,“ segir Marta í tilkynningu sinni.

Hún vill einnig raunhæfar lausnir í almenningssamgöngum, en Marta segir að Borgarlínan muni kosta borgarbúa hátt á annað hundrað milljarða og enn frekari tafir í umferðinni þar sem henni er ætlað að þrengja að annarri umferð. „Hún er tímaskekkja sem tekur ekkert mið af þeirri samgöngubyltingu sem nú er í deiglunni. Aukum frekar skilvirkni og þjónustu núverandi strætókerfis,“ segir Marta. 

Skipulag í sátt við borgarbúa

Marta segir að borgarskipulag þurfi að sinna bæði óskum og þörfum borgarbúa. „Þéttingu í eldri hverfum þarf að vinna í góðri sátt við íbúa í stað þess að kveikja ófriðarbál um alla borg. Sinna þarf eftirspurn eftir fjölbreyttum íbúðarkostum og tryggja nægt framboð lóða í borginni. Reykjavíkurborg hefur því miður ekki mætt þörfum markaðarins sem endurspeglast í háu fasteigna- og leiguverði í dag.“

Þá vill Marta menntastefnu sem mæti þörfum nútímans. „Meirihlutinn hefur gefist upp á því að stytta biðlista á leikskóla og sinna viðhaldi skólabygginga. Það er jafnréttismál að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla þannig að öll börn 12 mánaða og eldri verði tryggð leikskólavist. Enn fremur verðum við að auka sveigjanleika í skólastafi og sjálfstæði skóla.“

Stefna Sjálfstæðisflokksins er í raun frjálslynd sáttastefna – stétt með stétt – og því vel til þess fallin að koma Reykjavík aftur á rétta braut. Það mun okkur takast ef við berum gæfu til þess að velja samhentan framboðslista fyrir kosningarnar í vor,“ segir Marta að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert