Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir smit meðal starfsmanna og sjúklinga heilbrigðisstofnana helsta áhyggjuefnið fyrir komandi afléttingar.
Hann telur jákvætt að smitin í samfélaginu séu ekki að rjúka upp en vekur þó athygli á að sýnum, sem tekin eru á hverjum degi, hefur fækkað og er hlutfall jákvæðra sýna nokkuð hátt. Raunveruleg útbreiðsla innan samfélagsins liggur því ekki fyrir.
„Það var viðbúið að þegar við færum að taka aðeins færri sýni færum við að greina færri smit þó að útbreiðsla gæti hafa aukist. Það er öðruvísi landslag sem við erum að horfa á núna en áður.“
Spítalainnlögnum hefur nú fjölgað nokkuð síðustu daga og hafa útskriftir ekki verið jafn tíðar. 47 sjúklingar liggja inni á Landspítala með Covid-19 og sex á sjúkrahúsinu á Akureyri.
Karlmaður á þrítugsaldri lést með Covid-19 í síðustu viku á gjörgæsludeild Landspítala. Að sögn Þórólfs var maðurinn óbólusettur en hann vildi þó ekki gefa nánari upplýsingar um heilsufar hans.
Alvarlegum veikindum af völdum veirunnar hefur þó almennt ekki fjölgað mikið upp á síðkastið og hafa innlagnir á gjörgæslu verið fátíðar undanfarna daga.
Þrátt fyrir það fylgir mikill viðbúnaður Covid-sýktum sjúklingum sem gera vinnuaðstæður heilbrigðisstarfsfólks krefjandi. Þá voru 313 starfsmenn Landspítala frá vinnu vegna einangrunar í morgun, sem Þórólfur segir vera mikið áhyggjuefni. Til skoðunar er að fá Covid-sýkta starfsmenn til vinnu.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra sagði á föstudag í samtali við mbl.is að mögulega væri hægt að aflétta öllum takmörkunum innanlands fyrir lok mánaðar.
Spurður út í afléttingarnar segir Þórólfur helsta áhyggjuefnið vera hvort spítalinn og aðrar heilbrigðisstofnanir ráði við smit meðal sjúklinga og starfsmanna.
„Það er svona stóra spurningin. Auðvitað vitum við ekki hvað gerist og auðvitað vonum við að útbreiðslan í samfélaginu muni minnka en það mun gerast hægt og bítandi, það gerist ekki hratt. Faraldrar fara miklu hraðar upp heldur en þeir ganga niður.“
Spurður hvort það komi til greina að halda í grímuskylduna, þegar ráðist verður í frekari afléttingar, segir Þórólfur það enn vera í skoðun.
„Það verður bara að koma í ljós. Við erum bara nýbúin að aflétta hinu. Ég held við þurfum að sjá hvernig þróunin verður áður en við förum að tjá okkur um þessi einstöku atriði í einhverjum afléttingum.“