Sérsveitin og lögreglan var kölluð til í vesturbæinn í kvöld, að því er lögreglan staðfestir við mbl.is.
Tengjast aðgerðirnar máli sem lögreglan vinnur nú í ásamt sérsveitinni sem ekki er hægt að upplýsa um sem stendur, að sögn Guðmundar Péturs Guðmundssonar lögreglufulltrúa lögreglustöðvarinnar á Hverfisgötu.
Mikið sírenuvæl heyrðist og fjöldi lögreglubíla auk tveggja sérsveitarbíla sáust á leið í miðbæinn laust fyrir sjö í kvöld.
Uppfært kl. 19.40:
Tilkynningin sem barst lögreglu var ekki á rökum reist og er talið að um gabb hafi verið að ræða en tilkynnandinn hefur verið færður í varðhald. Þetta kemur fram í stuttri fréttatilkynningu frá lögreglunni.
Um hálfsjöleytið í kvöld hélt lögreglan að húsi í vesturbæ Reykjavíkur eftir að tilkynning barst um að innandyra væri karlmaður, sem hefði verið skotinn og með mikla áverka – í kjölfarið héldu lögreglumenn á staðinn og sérsveit lögreglustjóra einnig strax kölluð til.
Á vettvangi var hins vegar engan slasaðan mann að finna. Lauk málinu með þeim hætti að tilkynnandinn var því handtekinn og færður á lögreglustöð.