Fjárfesti ekki í búnaði fyrir ýtrustu aðstæður

Pawel Bartoszek, formaður Skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar.
Pawel Bartoszek, formaður Skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar. mbl.is/Eggert

Óhætt er að segja að það gríðarmikla fannfergi höfuðborgarinnar undanfarna viku hafi sett strik á samgöngur borgarinnar en víða hafa bílar setið fastir í vikunni.

Pawel Bartoszek, formaður Skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar, segir að um 50-60 snjómokstursbílar séu að störfum í borginni þegar mest er að gera.

Spurður hvort einfaldlega þurfi að bæta við fleiri bílum svo ruðningur gangi hraðar fyrir sig við aðstæður sem þessar segist hann ekki telja að svo þurfi.

„Nei, ég er ekki sannfærður að borgin eigi að beita sér fyrir því að fjárfest verði í búnaði til að hann geti hraðar ráðið við ýtrustu aðstæður,“ segir Pawel en slík snjókoma hefur ekki sést í fimm ár, eða frá því í febrúar 2017.

Lengra en hringvegurinn

Pawel segir það þurfi að moka yfir 1.200 km af götum og yfir 800 km af stígum. „Þannig að þetta er vel yfir lengd hringvegarins sem er 1300 km,“ segir hann.

Hann bætir við að unnið sé af miklum krafti. Fyrst sé lögð áhersla á að ryðja akstursleið sem séu síðan breikkaðar í næsta umgangi.

„Á sumum stöðum skapast vandræði vegna bíla sem hafa verið fastir í snjó. En það unnið að þessum jafnt og þétt.“

Aðalleiðir í hæsta forgangi

Uppi hefur verið gagnrýni, og þá sér í lagi á samfélagsmiðlum, um að ekki hafi verið nógu vel staðið að ruðningi á hjólastígum borgarinnar. Slíkt sé kaldhæðnislegt í ljósi nýsamþykktar hjólreiðastefnu borgarinnar.

Spurður hvort uppi sé sú staða nú, að ekki hafi verið rutt fyrir hjól í samræmi við stefnu borgarinnar, segir Pawel að aðalleiðir hjólastíga séu í hæsta forgangi og upphitaðir.

Þeir stígar sem falli þar undir hafi fjölgað töluvert á síðustu árum.

„Markmið hjólreiðaáætlunar er að auka þeim sem eru í hæsta forgangi um 50% á næstu fimm árum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert