Annað þeirra tækja sem notað er á sýkla- og veirufræðideild Landspítala til að greina sýni vegna Covid-19 er bilað og gengur því einungis á hálfum hraða. Af þeim sökum hefur erfiðlega gengið fyrir starfsmenn deildarinnar að „saxa á sýnahalann“ sem myndaðist þegar sóttkví var enn í gildi og aðsókn í sýnatöku var sem mest.
Að sögn Guðrúnar Svanborgar Hauksdóttur, yfirlæknis sýkla- og veirufræðideildar Landspítala, er von á viðgerðarmanni á morgun og ætti þá tækið að geta starfað aftur á fullri afkastagetu. Eins og staðan er núna nemur biðin eftir niðurstöðu úr Covid-sýnatöku um einum og hálfum sólarhring, jafnvel aðeins lengur.
2.393 manns greindust innanlands í gær með kórónuveiruna og hefur fjöldinn verið svipaður undanfarna daga. Að sögn Guðrúnar eru um og yfir fimm þúsund sýni send á deildina á degi hverjum til greiningar.
Ætti sá fjöldi að vera viðráðanlegur þegar allt er í toppstandi en vegna mikillar aðsóknar í sýnatöku fyrir örfáum vikum, þegar smitum hafði fjölgað ört í samfélaginu og sóttkví var enn í gildi, skapaðist langur sýnahali sem deildin hefur reynt að „saxa á“.
Hún segir bið eftir niðurstöðum ekki hafa lengst frá því að tækið bilaði rétt fyrir helgi en því miður hafi ekki tekist að draga úr henni, eins og vonir stóðu til um. Það ætti þó að takast þegar tækið kemst í lag.
Starfsmenn deildarinnar vinna nú langt fram á kvöld við að greina sýni og eru tækin tvö að allan sólarhringinn.