Öllum munum Hamarshallarinnar í Hveragerði hefur verið komið í skjól eftir að hafa staðið berskjaldaðir í óveðrinu um tíma, en greint var frá því í morgun að dúkurinn hefði fokið af höllinni.
„Þetta var mjög mikill búnaður sem tengist starfi fimleikadeildar. Þeir voru með allt sitt þarna uppi. Það voru stökkgryfjur, trampólín, dansgólf og dýnur og alls konar,“ segir Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóri í samtali við mbl.is.
„Þetta er allt komið í hús núna,“ segir hún en vonast er til þess að sá búnaður sé ekki mikið skemmdur.
„Við fengum tvær stórar geymslur og gátum sett þetta þangað inn. Bæjarbúar lögðust á eitt og það er nú verið að kynda og þurrka. Við þurfum að sjá hvernig það kemur út.
Við vonumst auðvitað til þess að þetta allt sé í lagi.“
Spurð út í framhaldið segir hún of snemmt að segja til um það en þó verði það samtal tekið á næstu dögum og vikum. Þarna verði þó áfram íþróttastarfsemi.
„Við gerum ráð fyrir að þarna verði íþróttamannvirki, ekki spurning.“
Mikilvægt sé að hafa í huga að þó að dúkurinn hafi fokið þá standi grunnurinn enn. Auk þess sé gott að enginn hafi slasast.
Þá hafi bæjaryfirvöld hafi verið í sambandi við framleiðendur hallarinnar og munu funda með þeim aftur á morgun auk tryggingafélaga.
„Svo þarf bæjarstjórn bara að taka ákvörðun um framhaldið í samstarfi við íþróttahreyfinguna.“
Hamarshöllin var reist árið 2012 og stóð því í tíu ár. Um er að ræða fimm þúsund fermetra mannvirki sem samanstóð meðal annars af hálfum gervigrasvelli, átta hundruð fermetra íþróttagólfi og púttvelli, til að nefna dæmi.
Aldís segir mikilvægt að fólk átti sig á því hversu vel höllin hefur þjónað bænum á þeim tíu árum frá því hún var reist.
„Nú þegar við erum að reyna að koma öllu íþróttastarfi fyrir í gamla íþróttahúsið við Skólamörk, þá sér maður hvers lags lyftistöng Hamarshöllin var á sínum tíma.“
Þá þakkar Aldís fyrir stuðning þeirra í bænum sem boðið hafa fram aðstoð auk nágrannasveitarfélaga.
„Nágrannar okkar hafa boðið okkur aðstöðu í sínum húsum. Bæði Selfoss og Þorlákshöfn. Það er líka búið að hafa samband við okkur frá Reykjavík. Staðir hér í Hveragerði með stóra sali hafa boðið okkur afnot af þeim.
Þannig það eru allir bara að leggjast á eitt. Mér finnst dásamlegt að verða vitni að því hvað Hvergerðingar standa saman þegar á bjátar.“