Veginum um Hellisheiði var aftur lokað fyrir klukkustund eftir að tekist hafði að opna veginn eftir óveðrið sem gekk yfir landið á mánudag og aðfaranótt þriðjudags. Nokkur fjöldi bíla er fastur í Hveradalsbrekku, nærri skíðaskálanum í Hveradölum.
Karen Ósk Lárusdóttir, verkefnastjóri hjá Landsbjörgu, segir björgunarsveitir á leiðinni til að hjálpa þeim fjölda ökumanna sem fastur er á leið í borgina.
Vegurinn um Þrengsli er opinn, sem og um Sandskeið.
Í gærkvöldi var búið að losa alla bíla sem festust á heiðinni í óveðrinu á mánudag. Ferja þurfti ökumenn í bílana en áður en hægt var að komast á vettvang og færa bifreiðarnar þurfti að ryðja veginn að hluta.
Að því loknu var ráðist í enn frekari snjómokstur til að hægt væri að opna veginn fyrir almenna umferð. Það hafðist í gærkvöldi en nú, eins og áður sagði, er veginum aftur lokað.