Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild Landspítalans, segist hafa áhyggjur af stöðunni á spítalanum og mögulegum afleiðingum þess fyrir spítalann að öllum takmörkunum vegna kórónuveirunnar verði aflétt á föstudag.
„Spítalinn er bara ekkert sérstaklega ánægður með þessar ráðstafanir. Það er mikið álag og það er viðbúið að við þetta muni fjölga tilfellum þannig að álagið á spítalanum, sem stendur höllum fæti, mun aukast. Við horfum ekkert fram á sérstaklega gleðilega tíma. Við erum uggandi yfir framtíðinni,“ segir Már í samtali við mbl.is.
„Þetta er vilji ráðuneytisins og ríkisstjórnarinnar. Þá tökum við því sem höndum ber,“ bætir Már við.
Greint var frá því í dag að öllum sóttvarnatakmörkunum verði aflétt frá og með föstudeginum, bæði innanlands og á landamærunum. Sömuleiðis fellur krafa um einangrun þeirra sem sýkjast af Covid-19 úr gildi.
Már segir það verða áskorun að takast á við alvarleg veikindi vegna Covid-19 í ljósi nýrra reglna um einangrun, en Covid-göngudeild Landspítalans mun þannig ekki geta haft eftirlit með sýktum einstaklingum sem ekki fá jákvæða niðurstöðu úr PCR-prófi.
„Við vorum með göngudeildina sem byggði á því að fá jákvæð svör (úr PCR-prófum) og þá gátum við sorterað þá út sem standa höllum fæti, en nú höfum við enga leið til að gera það. Nú er líklegra að fólk verði veikt í sínu nærumhverfi og ef það verður mjög veikt þá kemur það bara á bráðamóttökuna. Það bætir þá bara á inngripið sem er þar,“ segir Már.
Már segist vona það besta og að tilfellum veikinda eigi ekki eftir að fjölda með tilheyrandi álagi á Landspítala.
„En ef maður horfir raunsætt á þetta þá þó að ríkisstjórnin ákveði þetta þá hverfur ekki viðfangsefnið. Það fær bara aðra birtingarmynd og ég vona bara að við getum ráðið við þetta.
„Við höfum gumað af góðum árangri af því að við höfum getað auðkennt fólk sem er í áhættu og beitt snemmíhlutun. Nú getum við ekki gert það, að minnsta kosti ekki með sama hætti – við erum ekki með virka skoðun á heilsufari fólks,“ segir Már.
Fyrir utan Covid-tengd veikindi segir Már það viðbúið að álag á spítalann eigi einnig eftir að aukast vegna t.a.m. skemmtanatengdra tilvika.
„Það fer allt á hvolf. Núna upplifir fólk það, með réttu eða röngu, að þetta sé ekki lengur vandamál og þá fer samfélagið á fullt aftur, sem er í sjálfu sér gleðilegt, en það felst í því ákveðin virkni sem getur af sér bæði slys og óhöpp og birtingarmynd veikinda.
Það verður viðfangsefnið okkar sem mun að minnsta kosti ekki minnka við þetta, plús það að við munum sjá meira af skemmtanatengdum málum eins og beinbrotum, ofbeldisglæpum, nauðgunum – allt þetta kemur í gegnum bráðamóttökuna hjá okkur og þetta er að gerast á sama tíma og við erum með allt á rauðu og stöndum mjög höllum fæti,“ segir Már.
„Við erum með mikið brottfall fólks vegna veikinda og svo eru margir orðnir langþreyttir þannig að langvinn veikindi hafa aukist. Við erum í mjög erfiðum málum.“