Innrásin geti haft skaðleg áhrif á Ísland

Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra. mbl.is/Hari

Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra segir óvissuna sem nú ríkir í heiminum eftir innrás Rússa í Úkraínu munu geta haft skaðleg áhrif á Ísland. 

Þá bendir Lilja á að í fyrsta lagi muni viðskiptakjör líklega versna vegna þess að olíuverð er að hækka sem geti þá leitt til hækkunar á vísitölu neysluverðs. 

„Það er óróleiki á öllum mörkuðum. Markaðir á heimsvísu hafa verið að lækka. Þannig það er óvissa sem hefur skaðleg áhrif á okkur líka,“ segir Lilja.

Óvissa með framtíðina

Lilja bendir á að ástandið komi líklega til með að verða þungt í Evrópu. Fólk muni spyrja sig hvað gerist næst og hvort að Pútín muni næst reyna á NATO-ríkin. 

„Eru það Eystrasaltsríkin sem hann er að falast eftir og að endurheimta Sovétríkin eins og þau voru?“ spyr Lilja, og segir óvissuna ekki einungis vera vegna innrásar Rússa heldur sé einnig óvissa fram í tímann.

„Og öll óvissa er mjög slæm fyrir alþjóðhagkerfið.“

Þá segir hún það mögulegt að fóðurverð hækki því Úkraína flytji mikið út af korni. „Verðbólga varðandi svona þætti, hún getur þá hækkað eitthvað,“ segir Lilja. 

Ferðavilji til friðsæls ríkis geti orðið meiri

Að sögn Lilju gætu þó einhver jákvæð áhrif orðið á Íslandi þar sem ferðaviljinn til ríkis sem er öruggt geti orðið meiri.

„Á móti kemur að af því að við erum friðsælt ríki getum við alveg eins átt von á því að ferðalangar sem ætluðu að heimsækja Svartahafið, þeir munu ekki gera það, þeir munu frekar vilja koma hingað,“ segir Lilja. 

Auk þess bendir hún á að varðandi sjávararafurðir hafi Rússar sett á viðskiptabann við Ísland fyrir ekki svo löngu síðan. „Þannig að viðskiptalegir hagsmunir eru ekki eins stórir og þeir voru á sínum tíma,“ segir Lilja að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert