Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að innrás Rússa í Úkraínu af fullum þunga í nótt sé versta mögulega sviðsmyndin. Hún var á leið að funda með Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra vegna ástandsins, en síðar í dag mun svo þjóðaröryggisráð koma saman og fara yfir stöðuna eins og hún er.
„Íslensk stjórnvöld fordæma harðlega þessa innrás Rússa og það má segja að þetta sé versta sviðsmyndin að raungerast í þessum málum,“ segir Katrín þegar mbl.is náði á hana stuttlega nú á áttunda tímanum.
Þórdís hafði áður upplýst að fastaráð Atlantshafsbandalagsins myndi funda klukkan 7:30 í morgun, en þar verður farið yfir stöðuna. Katrín segir að fyrsti fundur dagsins hjá henni verði svo með Þórdísi og í kjölfarið muni þjóðaröryggisráðið funda síðar í dag. Hún tekur þó fram að sá fundur hafi verið boðaður með fyrirvara, en ætlunin hafi engu að síður verið að fara yfir stöðu mála í Úkraínu. Þá segir hún að innan Evrópusambandsins verði fundað í dag um frekari efnahagslegar refsiaðgerðir og að Ísland, ásamt Noregi hafi verið í samráði með sambandinu um þær aðgerðir og muni því fylgjast vel með.
Katrín ítrekar að innrás Rússa sé brot á alþjóðalegum en segir að hugur hennar sé nú hjá íbúum Úkraínu. „Þegar til stríðsátaka kemur eru óbreyttir borgarar alltaf fórnarlömbin,“ segir Katrín.