Stefnir í rauðan dag í kauphöllinni

Lækkanir eru hjá öllum félögum í kauphöllinni.
Lækkanir eru hjá öllum félögum í kauphöllinni. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Það stefnir í rauðan dag í kauphöllinni ef marka má þróun gengi bréfa skráðra félaga frá opnun markaða í morgun, en þau hafa öll fallið og er ekki ósennilegt að rekja megi þróunina til fregna af innrás Rússa í Úkraínu enda hafa kauphallir um heim allan séð lækkanir í dag.

Mesta lækkunin hefur verið hjá Icelandair en gengi bréfa félagsins hefur lækkað um 8,2% frá opnun markaða. Þá hefur gengi bréfa Iceland Seafood lækkað um 7% og Marel um 5,2%.

Þá hafa bréf VÍS lækkað um tæp 5%, Kviku banka um 4,8%, Origo um 4,3% og Síldarvinnslunnar um 4%. Gengi bréfa annarra fyrirtækja hafa lækkað minna en minnsta lækkunin er hjá Skeljungi og nemur hún 1,9%.

Hlutabréf lækka og hráefnisverð hækkar

Lækkanir hafa einnig verið víða um heim í dag og hefur breska FTSE 100 vísitalan lækkað um 2,94%, franska CAC 40 um 4,22% og þýska DAX vísitalan um 4,42%. Í Asíu urðu lækkanir fyrir lokun markaða í morgun og nam lækkun japönsku Nikkei 225 vísitölunnar 1,81% og Hang Seng vísitalan í Hong Kong lækkaði um 3,21%.

Á sama tíma og gengi bréfa fyrirtækja hafa lækkað hefur verð ýmissa hráefna farið hækkandi. Hráolía hefur hækkað um 8,95% og er komin í 105,51 bandaríkjadali. Auk þess hefur hitunarolía hækkað um 6,65% og gas um 5,84%. Þá hefur gull hækkað um 3,16%, silfur um 4,16%  og kopar um 2,73%.

Vekur athygli að ýmis matvæli á mörkuðum hafa einnig hækkað svo sem hveiti um 5,71%, maís um 5,12% og sojabaunir um 4,84%.

Þróunin í dag er í takti við gærdaginn en þá tóku markaðir að lækka eftir að neyðarástandi var lýst í Úkraínu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert