Þorsteinn Már tjáir sig um greinargerðina

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja.
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja. Ljósmynd/Þórhallur Jónsson

Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja sendi starfsmönnum fyrirtækisins bréf í dag þar sem hann tjáir sig um greinargerðina sem lögreglustjórinn á Akureyri lagði fram fyrir héraðsdómi í fyrradag.

Í bréfinu sem mbl.is er með undir höndum segir hann Samherja ekki eiga aðild að svokölluðu „símamáli“ Páls Steingrímssonar skipstjóra. Þá gagnrýnir hann fjölmiðla og segir þá hafa fjallað um málið af miklu ójafnvægi og offorsi að undanförnu.

„Samherji á ekki aðild að þessu máli og hefur ekki kært neinn eða gert neinar kröfur. Hins vegar stöndum við með okkar fólki eins og ævinlega og ekki síst þegar á bjátar. Okkur svíður nú hvernig fjölmiðlamenn, sem sjálfir eru sakborningar, hafa farið fram í málinu; máli sem þeir ættu í raun alls ekki að fjalla um vegna tengsla sinna við það,“ skrifar Þorsteinn og bætir við:

„Í fyrradag lagði lögreglustjórinn á Akureyri fram greinargerð fyrir héraðsdómi. Í henni koma fram sláandi atriði um atferli fjölmiðlamanna, sem telja nú að þeir séu yfir lög hafnir og þurfi ekki að gefa lögreglu skýrslu um hugsanlega refsiverða háttsemi eins og aðrir landsmenn þurfa að gera.“

Skýrslutökurnar hafi ekkert með Samherja að gera

Þorsteinn ítrekar í bréfi sínu að í greinargerð lögreglustjórans komi skýrt fram að fyrirhugaðar skýrslutökur hafi ekkert með málefni Samherja að gera.

„Fjölmiðlamennirnir eru grunaðir um brot gegn ákvæðum almennra hegningarlaga, þar sem mælt er fyrir um refsingu á hendur þeim sem brýtur gegn friðhelgi einkalífs með því að hnýsast í, útbúa, afla, afrita, sýna, skýra frá, birta eða dreifa í heimildarleysi skjölum, gögnum, myndefni, upplýsingum eða sambærilegu efni um einkamálefni viðkomandi. Einnig mæla lögin fyrir um refsingu þeirra sem í heimildarleysi verða sér úti um aðgang að gögnum eða forritum annarra sem geymd eru á tölvutæku formi,“ skrifar Þorsteinn.

Blaðamennirnir fjórir sem lögreglan á Norðurlandi eystra hefur boðað í …
Blaðamennirnir fjórir sem lögreglan á Norðurlandi eystra hefur boðað í yfirheyrslu. Aðalsteinn Kjartansson, blaðamaður á Stundinni, Arnar Þór Ingólfsson, blaðamaður á Kjarnanum, Þóra Arn­órs­dóttiur, rit­stjóri Kveiks á Rík­is­út­varp­inu og Þórður Snær Júlí­us­son, rit­stjóri Kjarn­ans, Samsett mynd

Síminn hafi verið afhentur fréttamönnum RÚV

Í bréfinu fjallar Þorsteinn um innihald greinargerðarinnar og segir þar skilmerkilega rakið að einstaklingur nákominn Páli hafi tekið síma hans ófrjálsri hendi á meðan Páll lá þungt haldinn á sjúkrabeði. Hann hafi síðan afhent fjölmiðlamönnum símann og að þeir hafi afritað símann, sem innihélt mikið af viðkvæmum persónulegum upplýsingum, að hluta eða öllu leyti, vitandi um hver átti símann. Þá bendir hann á lögreglan telji það ljóst að þeir sem afrituðu símann hafi þurft að skoða allt sem í honum var og ljóst að afrituðum gögnum hafi verið dreift á milli fjölmiðlamanna.

„Af því sem rakið er í greinargerðinni verður helst ráðið að síminn hafi verið afhentur fréttamönnum hjá Ríkisútvarpinu,“ skrifar Þorsteinn.

„Í greinargerðinni kemur fram að lögreglan sé með umtalsvert af gögnum;  símasamskiptum, tölvupóstum og annars konar samskiptum þess einstaklings sem tók símann og viðkomandi fjölmiðlamanna, þar sem m.a. sé rætt um minnislykil, eignarhald og aðgangsorð og enn fremur komi fram í samskiptunum að upplýsingar um viðkvæm persónuleg málefni Páls sé að finna í símanum,“ skrifar Þorsteinn.

Áður hefur komið fram að í síma Páls hafi verið að finna myndbönd af honum í kynlífsathöfnum og að blaðamennirnir fjórir sem eru boðaðir til skýrslutöku séu grunaðir um dreifingu klámefnis. 

Segir þátttöku fjölmiðlamanna með ólíkindum

Þá segir Þorsteinn atburðarásina sem lögreglustjórinn lýsir og þátttöku fjölmiðlamanna í henni vera með miklum ólíkindum.

Engu að síður fjalla þessir sömu fjölmiðlar af fullum þunga um málið eins og ekkert hafi í skorist og að þeir séu til þess bærir og hlutlausir.  Það er óneitanlega sárt að fylgjast með svo óvæginni og óverðskuldaðri umfjöllun um okkar fólk og fyrirtækið en þó er það svo, eins og svo oft áður, að samstaða ykkar, heilindi og traust gefur ekki eftir. Fyrir það er ég óendanlega þakklátur,“ stendur að lokum í bréfinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert