Jón Gnarr hefur tekið NATO í sátt

Jón segist alla ævi hafa átt í erfiðu sambandi við …
Jón segist alla ævi hafa átt í erfiðu sambandi við NATO. Kristinn Ingvarsson

Jón Gnarr hefur, í ljósi stríðsins í Úkraínu, skipt um skoðun á Atlantshafsbandalaginu. 

„Ég tel að það hafi verið rétt ákvörðun af stjórnvöldum að gerast ein stofnþjóða NATO og við eigum að sinna því verkefni af þakklæti, metnaði og virðingu,“ skrifar hann í færslu á facebook síðu sinni. 

Jón kveðst standa á hugmyndafræðilegum tímamótum, en hann hafi verið „alinn upp í nokkuð miklum kommúnisma“.

Hann rifjar það upp hve mótfallinn faðir hans var herstöðinni á sínum tíma og því að Ísland skyldi gerast stofnaðili NATO. 

Stofnaðild Íslands að NATO var gríðarlega umdeilt málefni á sínum …
Stofnaðild Íslands að NATO var gríðarlega umdeilt málefni á sínum tíma. Morgunblaðið

Ísland úr NATO-kvak

„Ég hef alla ævi átt í erfiðu sambandi við NATÓ. Ég hef látið bandalagið fara í taugarnar á mér. Ég hef líka látið, það sem mér hefur fundist, innihaldslaust Ísland úr Nató-kvak Allaballa, fara í taugarnar á mér.“ 

Jón kveðst vera friðarsinni og segir að sér leiðist hernaðarbrölt.

„En ég hef lært það að til eru öfl í heimi okkar, þar sem búllí taka sig saman og nýta sér varnarleysi sakleysingja. Ég veit ekki hversu oft ég hef rökrætt við fólk hvernig hefði átt að stöðva Hitler öðruvísi en með ofbeldi. Hvað eigum við að eyða miklum tíma í fundi og spjall með strákunum í ISIS áður en við tökum í hnakkadrambið á þeim ?“

„Þetta er bara þvaður“

Í umræðu um stórveldin, Rússland og Kína þar sem ógnarstjórn ríkir hefur Jón, að eigin sögn, fundið sig tilneyddan til að benda á hlut Ameríku og Vesturlanda.

Í aðdraganda innrásar Rússa í Úkraínu hafði hann byrjað að reiða fram rök með því að Ameríka og NATO bæru í raun ábyrgð. „Þetta er bara þvaður. Pútín og Kremlarhyski hans eru bara ótíndir glæpamenn og manneskjuhatarar.

Því hefur Jón Gnarr ákveðið að endurskoða eigin hugmyndir, sem hafa fylgt honum frá barnsaldri og kveðst hann í dag þakklátur þvi að hafa fengið að vaxa úr grasi í friðsömu vestrænu lýðræðisríki. 

„Sem byggir á hallærislegum en skynsamlegum skandínavískum gildum, þar sem fólk á í virkum samskiptum og viðskiptum við aðrar þjóðir.“

„Fyrirgefðu elsku pabbi“

Jón áréttar að þó NATO sé ekki algott félag, geri það meira gott en slæmt.

„Ef ekki væri fyrir NATO væri Pútín fyrir löngu búinn að ráðast inní Úkraínu og innlima hana í sitt þrælaríki. Hann væri líka búinn að ógna og ráðast jafnvel inní Pólland.“ 

Jón segist vera orðinn of gamall og hafa of mikið að gera til þess að ganga með „gamalt og þreytandi krump í hjartanu.“

Hann endar svo færsluna á orðunum: „Lengi lifi vestræn samvinna. Guð blessi NATÓ.“ og  „Fyrirgefðu elsku pabbi minn“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert