„Ég gat ekki staðið í fæturna þegar ég las fréttirnar þennan fimmtudagsmorgun. Þú trúir því ekki hvað staðan er hræðileg,“ segir Nina Faryna, úkraínsk kona sem búsett er á Flúðum, í samtali við mbl.is.
Nina flutti hingað til lands árið 2003 ásamt eiginmanni sínum og starfar nú á leikskóla.
Hún segist vera í áfalli yfir ástandinu og segir það óraunverulegt. Nina hefur fundið fyrir mikilli streitu og kvíða undanfarna daga en stór hluti fjölskyldu hennar býr í Úkraínu.
Foreldrar hennar búa nærri borginni Ternopil sem er í vesturhluta landsins. Nina telur þau vera frekar örugg en foreldrar hennar dvelja nú flestum stundum í kjallara heimilis síns.
Nina segist hafa boðist til að kaupa flugmiða fyrir þau til Íslands en þau treysta sér ekki í það ferðalag.
Þá halda bróðir Ninu og fjölskylda hans sig einnig heima.
„Krakkarnir fara ekki í skólann. Það eru ekki sprengingar en stundum koma hljóð sem þýða að þau þurfa að fela sig í nokkrar klukkustundir í senn.“
Frændfólk Ninu býr í Kænugarði og hefur hún beðið þau um að koma til Íslands þar til ástandið gengur yfir. Hún segir þau hins vegar ekki vilja það þar sem líf þeirra er í Úkraínu.
Nina nefnir þó að systurdóttir hennar hafi ákveðið að flýja til Póllands en ferðalagið tók hana meira en 46 klukkustundir.
Hún er nú á hóteli í Póllandi ásamt sonum sínum tveimur, annar er þriggja ára og hinn er fimm ára.
„Við erum að hugsa hvað við gerum næst fyrir þau en við viljum fá þau til Íslands í friðinn.“
Nina segir að bróðir hennar reyni nú að hjálpa fólki, sem flúið hefur frá Kænugarði í sveitir Úkraínu, eins mikið og hann getur.
„Hann býður fólki gistingu, mat og hlý föt. Þá hefur starfsfólkið á veitingastaðnum sem hann rekur verið að elda mat og senda hann til höfuðborgarinnar,“ segir Nina og bætir við að samstaða Úkraínumanna um þessar mundir sé einstök.
„Ég er svo stolt af fólkinu mínu núna. Þau hafa staðið sig svo vel,“ segir Nina og bætir við að hún sé í góðu sambandi við fjölskyldu sína.
Á föstudag birtist á mbl.is viðtal við Mikhail Noskov, sendiherra Rússlands á Íslandi, þar sem hann segir þau nasistaöfl sem Rússar vilji losna við í Úkraínu, samanstanda af sjálfboðaliðum sem beri ábyrgð á þjóðarmorðum á Donbas-svæðinu í austurhluta landsins.
Nina segir orð sendiherrans vera röng og áréttar að Íslendingar megi ekki taka þeim sem sannleik, þar sem Noskov starfi fyrir Vladimír Pútín Rússlandsforseta.
„Úkraínumenn eru bara venjulegt fjölskyldufólk sem vill bara frið, fólk ber aldrei vopn. Við viljum ekki verða hluti af Rússlandi,“ segir hún og leggur áherslu á að Úkraínumenn séu ekki að berjast hver við annan heldur sé það rússneski herinn sem er að ráðast á Úkraínu.
„Svona á ekki að gerast árið 2022.“