Stríðsátökin sem nú geisa í Úkraínu eru rétt að byrja og á rússneski herinn líklega mun meira inni en menn halda.
Þetta segir Albert Jónsson, alþjóðastjórnmálafræðingur og fyrrverandi sendiherra Íslands í Moskvu, í samtali við mbl.is.
Inntur eftir viðbrögðum við ákvörðun Vladimír Pútíns Rússlandsforseta um að skipa hersveitum Rússa sem sjá um fælingarvopn að vera í viðbragðsstöðu segir Albert hana hafa komið sér á óvart.
„Með þessu eru þeir að undirstrika að Rússland sé kjarnorkuveldi en ég sé ekki nauðsyn þess að undirstrika það. Það vita það allir. Þannig ég var mjög hissa að sjá fréttir af þessu í gær.“
Kveðst hann þó ekki telja fyrirskipun Pútíns vera til marks um að Rússum gangi verr í hernaði sínum í Úkraínu en þeir ætluðu sér heldur séu þeir rétt að byrja.
„Sumir segja að það hafi orðið einhver herstjórnarmistök í birgðaflutningum en það eru allt bara getgátur. Aðrir benda á að átökin eru bara fimm daga gömul. Ég hallast frekar að því. Mér sýnist af fréttum að þeir [Rússar] hafi sótt mun harðar að Karkív og Kænugarði í dag. Þeir eru bara að fara í gang.“
Þó alltaf sé einhver möguleiki á að mistök verði í herstjórn eða birgðaflutningum Rússa hafi her þeirra mikla yfirburði yfir úkraínska herinn, að sögn Alberts.
„Sumir sérfræðingar segja að það taki þá [Rússa] bara tíma að fara í gang og nýjustu fréttir frá Karkív og Kænugarði benda til þess. Allar væntingar eru um það að ef þeir beiti sér af fullum þunga á vígvellinum þá sigri þeir því þeir eru með svo mikla yfirburði. En svo á eftir að koma í ljós hvað sigur þýðir.
En ég hallast á þá skoðun sem hefur komið fram áður að þetta er bara að byrja. Það er of snemmt að líta svo á að Rússum sé að mistakast. Þeir herja nú af hörku á höfuðborgina og fyrir utan það að beita þungavopnum þar, sem væru vondar fréttir fyrir borgarbúa, hafa þeir einn möguleika sem er að umkringja borgina og sjá svo hvað gerist.“
Þá segir Albert það vel koma til greina að ákvörðun Pútíns um að fyrirskipa hersveitum Rússa sem sjái um fælingarvopn að vera í viðbragðsstöðu sé gagnaðgerð vegna nýjustu viðskiptaþvingana sem Vesturlandaþjóðir komust að samkomulagi um að beita Rússa sl. sunnudag en á meðal þvingananna er útilokun nokkurra rússneskra banka úr SWIFT-fjármálakerfinu.
„Þegar Pútín lýsti því yfir í gær að það sé verið að herða viðbragðsstöðu kjarnorkuaflans í Rússlandi sagði hann vestræn ríki ekki bara vera að grípa til fjandsamlegra efnahagsaðgerða gagnvart þeim heldur séu þær aðför sem kallast hefur verið nuclear option, e. efnahagslegt kjarnorkustríð. Þannig með þessu kann hann að vera að bregðast við þeim aðgerðum.“
Þá segir hann ákvarðanir nokkurra Vesturlandaþjóða um að útvega úkraínska hernum fleiri vopn sér til varnar í stríðsátökunum einnig hafa farið öfugt ofan í rússnesk stjórnvöld.
„En menn keyra ekkert með vopn inn í Úkraínu því ef þeir gerðu það væru þeir orðnir þátttakendur í stríðinu. Landvarnarráðherra Úkraínu sagði þeim bara að koma vopnunum til Póllands og að úkraínski herinn myndi sjá um að koma vopnunum til landsins. Það verður þó áhættusöm aðgerð því Rússar eiga algert yfirráð í lofti en auðvitað láta rússnesk stjórnvöld þetta fara í taugarnar á sér.“