Pétur Óli Pétursson, fararstjóri og athafnamaður, sem er búsettur í Pétursborg og hefur verið það undanfarin 25 ár segir skiptar skoðanir meðal Rússa um innrásina í Úkraínu. Margir bendi á að búið hafi verið að reyna allar aðrar leiðir en þessa til að aðstoða Rússa í austurhéruðum Úkraínu.
Þetta segir Pétur í samtali við mbl.is en hann er staddur hér á landi í fríi.
Óvíst er hvenær hann kemst aftur til síns heima en flugferðir þangað eru af skornum skammti. Fjölskylda hans er í Pétursborg og segir Pétur lífið eðlilegt þar eins og er en býst við að refsiaðgerðir gegn Rússum „fari að bíta“ bráðlega.
Að sögn Péturs eru margir mótfallnir innrásinni og finnst að hægt hefði verið að fara aðrar leiðir í því sem Rússar kalla að aðstoða samlanda sína í austurhluta Úkraínu.
„Aðrir segja hins vegar að það sé búið að reyna allar leiðir til að komast að niðurstöðu með þetta vandamál. Þetta er það eina sem var eftir; það var búið að hóta þessu,“ segir Pétur.
Spurður hvort þá hefði ekki verið nóg að fara inn í austurhluta Úkraínu, líkt og gert var á Krímskaga 2014, segir Pétur að hann ætli ekki að dæma um það en sjálfsagt finnist mörgum það.
„Þjóðskipulagið Í Úkraínu síðustu 20 árin hefur verið skelfilegt,“ segir Pétur sem bætir við að hann vilji ekki nánar fara í pólitík.
Hann og fjölskylda hans ætla ekki að færa sig um set, enda er heimilið í Pétursborg.
„Við færum okkur ekki milli landa af ótta við átök. Það eru ákveðin mótmæli þarna á götum úti og sjálfsagt halda þau áfram,“ segir Pétur sem þykir fullkomnlega eðlilegt að fólk mótmæli, enda langt því frá allir hlynntir innrásinni.
Pétur býst við nokkrum möguleikum hvernig stríðið muni enda og segir að auðvitað væri best ef samkomulag myndi nást í friðarviðræðum sem fram verður haldið í kvöld.
„Úkraínumenn þyrftu þá að gefa verulega eftir og í raun að gefast upp. Þeir verða að gefast upp hvort eð er, fyrr eða síðar. Ef þeir gefast ekki upp verður stríð þarna áfram og þeir sigraðir að lokum,“ segir Pétur sem hefur ekki trú á inngripum Vesturvelda og NATO-ríkja frekar en orðið er.
Pétur hefur enga trú á því að stríðið endi á því að valdarán verði framið gegn Vladimir Pútín Rússlandsforseta eða honum ýtt til hliðar á einhvern annan hátt.
„Hann er svo rosalega sterkur leiðtogi í sínu landi og stór hluti þjóðarinnar fylgir honum í þessu en ekkert allir.“