Góðæri hjá vopnasölum

Úkraínskir hermenn taka við sendingu af Javelin-skriðdrekabönum. Þetta bandaríska hátæknivopn …
Úkraínskir hermenn taka við sendingu af Javelin-skriðdrekabönum. Þetta bandaríska hátæknivopn hefur hjálpað til að hægja á innrás rússneska hersins. Víða undirbúa ríki að verja auknu fjármagni til vopnakaupa. SERGEI SUPINSKY

Það ætti ekki að koma á óvart að innrás Rússa í Úkraínu hefur ýtt upp hlutabréfaverði hergagnaframleiðenda. Reikna margir greinendur með að verðið muni halda áfram að hækka enda hefur útspil rússneskra stjórnvalda skotið allri heimsbyggðinni skelk í bringu og gert bæði stjórnmálamenn og kjósendur viljugri til að verja stærri skerf af fjárlögum til vopnakaupa.

Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í morgun. 

Þannig tilkynntu þýsk stjórnvöld nýverið að útgjöld til hernaðarmála yrðu aukin úr u.þ.b. 1,5% upp í meira en 2% af landsframleiðslu. Þá gerir áætlun Japana um útgjöld til varnarmála á þessu ári ráð fyrir að í fyrsta skipti síðan á 7. áratugnum fari þau fram úr 1% af landsframleiðslu.

Frá því átök hófust hafa hlutabréf Raytheon Technologies hækkað um 8%, General Dynamics um 12% og Huntington Ingalls um 14%. Hins vegar eru það Lockheed Martin og Norhtrop Grumman sem hafa vinninginn með 18% hækkun annars vegar og 22% hins vegar.

Allt eru þetta bandarísk risafyrirtæki og sérhæfa sig á ólíkum sviðum hernaðar. Þannig smíðar Norhrop Grumman B-2-sprengjuflugvélina, auk þess að framleiða fjarstýrða hernaðardróna og radarbúnað. Lockheed Martin smíðar F-35-orrustuþotuna og Trident skotflaugina en Raytheon smíðar m.a. skotflaugar, eldflaugavarnir og netöryggisbúnað. Raytheon og Lockheed Martin þróuðu í sameiningu Javelin-skotflaugina sem nýst hefur Úkraínumönnum vel við að granda rússneskum skriðdrekum.

Það sem af er árinu hefur hlutabréfaverð Raytheon styrkst um rúmlega 16%, General Dynamics um nærri 13,5%, Huntington Ingalls um rösk 17%, Lockheed Martin um rúm 30% og Norhtrop Grumman um nærri 21%.

Er vopnaframleiðsla góð eða slæm?

Evrópskum hergagnaframleiðendum hefur einnig vegnað vel. Breska stórfyrirtækið BAE Systems, sem smíðar m.a. skriðdreka, herþotur og herskip, hefur hækkað í verði um rösklega 30% frá ársbyrjun en Rheinmetall í Þýskalandi, sem smíðar allt frá skotfærum yfir í loftvarnabyssur, er orðið rúmlega 75% verðmætara í dag en í byrjun árs.

Hefur hernaðarbrölt Rússa vakið áhugaverðar spurningar um samfélagslega ábyrgar fjárfestingar en margir hlutabréfasjóðir leggja sig fram við að sniðganga fyrirtæki sem framleiða hergögn og skotvopn. Þannig hefur t.d. norski olíusjóðurinn, eins og frægt er, ekki keypt hlutabréf í fyrirtækjum á borð við Airbus, Lockheed Martin og BAE Systems vegna tengsla fyrirtækjanna við smíði kjarnorkuvopna, rétt eins og sjóðurinn sneiðir hjá Berkshire Hathaway vegna notkunar á kolum í orkuverum samsteypunnar og kaupir ekki heldur hluti í tóbaksvöruframleiðandanum Philip Morris.

New York Times fjallaði um það í lok síðustu viku að tveir markaðsgreinendur hjá Citibank lögðu til við fjárfesta að undanskilja ekki hergagnaframleiðendur á grundvelli samfélagslega ábyrgrar fjárfestingarstefnu. Halda greinendurnir því fram að þegar allt kemur til alls sé leitun að betri leið til að sýna samfélagslega ábyrgð einmitt nú en að beina fjármunum til fyrirtækjanna sem framleiða þau tól og tæki sem fólk þarf til að verja eigið líf, land og lýðræði gegn innrásum óvinaþjóða. Eru rök greinendanna þau að til að viðhalda friði og stöðugleika á heimsvísu, og til að standa vörð um lýðræðisleg gildi, þurfi vel starfhæfan hergagnaiðnað svo þjóðir geti keypt þann búnað sem þær þurfa til að fæla óvini frá að gera innrás.

Hefur þessi niðurstaða verið harðlega gagnrýnd en greinendur Citi svara því til að ef ekki tekst að koma í veg fyrir hernaðarátök á milli ríkja verði þeim mun erfiðara að takast á við þær áskoranir sem heimsbyggðin þarf að leysa s.s. á sviði umhverfis- og efnahagsmála.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert