Flóttafjölskylda fékk inni á heimili dómsmálaráðherra

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra ásamt mæðginunum sem komu sem flóttafólk frá …
Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra ásamt mæðginunum sem komu sem flóttafólk frá Úkraínu.

Úkraínsk kona sem kom til landsins sem flóttamaður seint í gærkvöldi með ellefu ára son sinn fékk óvænt inni hjá Jóni Gunnarssyni dómsmálaráðherra, en þau eiga sameiginlegan vin sem hafði leitað ráða hjá Jóni varðandi húsnæði.

Bauðst Jón til að hýsa hana og soninn fyrst um sinn. Frá þessu greinir Atli Sigurðarson á Facebook, en með skömmum fyrirvara hafði vinkona hans frá Úkraínu samband við hann og lét vita að hún og sonur hennar væru á leið til landsins.

Atli segir í samtali við mbl.is að fjölskyldan búi í Karkív í austurhluta landsins, en þar hafa átök við innrásarlið Rússlands verið hvað hörðust. Segir hann að mæðginin hafi farið ein en að foreldrar hennar hafi orðið eftir. Þau hafi hvatt dóttur sína til að fara og sagt henni að bæði hún og sonurinn ættu langt líf framundan meðan þau hefðu lifað stærstan hluta af sínu lífi.

Mæðginin komu til landsins seint í gærkvöldi, en Atli vissi af komu þeirra með skömmum fyrirvara eins og fyrr segir. Segist hann hafa verið í vandræðum með að hýsa þau sjálfur og því hringt í Jón til að leita ráð, en þeir eru gamlir vinir og er Jón fyrrverandi mágur Atla.

Segir hann að viðbrögð Jóns hafi strax verið mjög jákvæð og að hann hafi sagt: „Kemur hún ekki bara til okkar til að byrja með?“ Það hafi orðið niðurstaðan, en Atli játar því að konan hafi fyrst um sinn verið nokkuð hissa þegar hann upplýsti hana að hún væri á leið á heimili dómsmálaráðherra Íslands. „Þau voru bara glöð að vera komin til landsins.“

Atli segir að dagurinn í dag hafi svo farið í að taka næstu skref í því ferli sem fylgi því að vera flóttamaður. Þannig bendir hann á að sem flóttafólk hafi fjölskyldan komið með lítið annað en sem nemur einum góðum bakpoka. Því vanti ýmsar nauðsynjavörur og að þau séu nú að redda því. Þá sé einnig í vinnslu að finna samastað fyrir þau til lengri tíma og dagurinn í dag og mögulega næstu dagar muni fara í þá vinnu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert