Nýtt neyslurými sem rekið er í sérútbúnum bíl mun taka til starfa á morgun í Reykjavík. Velferðarráð samþykkti samning velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og Rauða krossins um rekstur neyslurýmisins í dag. Í rýminu munu einstaklingar, 18 ára og eldri, geta neytt ávana- og fíkniefna í æð undir eftirliti starfsfólks.
Embætti landlæknis hefur gefið út starfsleyfi vegna rekstursins og er það í fyrsta skipti sem slíkt leyfi er veitt.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.
Í tilkynningunni kemur fram að neyslurýmið byggi á hugmyndafræðinni um skaðaminnkun. Í því falist að draga úr heilsufarslegum, félagslegum og efnahagslegum afleiðingum notkunar vímuefna, án þess endilega að draga úr notkun þeirra.
„Við höfum lagt mikla áherslu á að byggja upp skaðaminnkandi þjónustu á þessu kjörtímabili með það að markmiði að minnka skaðann sem notkun vímuefna hefur fyrir þann sem notar þau en einnig fjölskyldu, nágranna og samfélagið allt,“ er haft eftir Heiðu Björg Hilmisdóttur, formanni velferðarráðs Reykjavíkurborgar, í tilkynningunni.
Staðsetning bílsins er ákveðin með tilliti til þarfa notenda í huga og staðsett miðsvæðis í Reykjavík, í samstarfi við viðbragðsaðila. Leyfið vegna rekstursins er gefið út til eins árs.
„Þetta er merkilegur áfangi í sögu skaðaminnkunar á Íslandi og við hjá Rauða krossinum erum stolt af því brautryðjendastarfi sem við höfum unnið síðastliðin ár þannig að fólki með vímuefnavanda sé mætt á jafningagrundvelli og fái þá aðstoð sem þau þurfa,“ er haft eftir Marín Þórsdóttur, deildarstjóra höfuðborgardeildar Rauða krossins.
Áætlaður rekstrarkostnaður neyslurýmisins er um 50 milljónir króna á ári en hann greiðist af Sjúkratryggingum Íslands.