Deilt um hvort uppfæra þurfi varnarsamninginn

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er algjör grundvallarskylda stjórnvalda hverju sinni að verja öryggi borgaranna,“ sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar á Alþingi, þar sem hún spurði Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra hvort ekki væri ástæða til að taka upp varnarsamninginn við Bandaríkin.

Benti Þorgerður Katrín á að ávallt þyrfti að meta og kortleggja hvernig öryggis- og varnarhagsmunum er best borgið, hvort sem það er í gegnum markvisst varnarstarf eða annað alþjóðlegt samstarf sem geti stuðlað að friði og öryggi.

Aðstæður aðrar en árið 1951

Hún sagði að varnarsamningurinn við Bandaríkin, frá árinu 1951, væri einn af hornsteinum Íslendinga þegar komi að þjóðaröryggi en aðstæður nú væru aðrar en þá.

„Varnarsamningurinn þarf með ótvíræðum hætti að taka til netárása sem beinast gegn öryggi landsins. Hann þarf líka að taka til mikilvægis órofinna samgangna, innviða og samskipta Íslands við umheiminn á ófriðartímum, eins og birgðaflutninga, sæstrengja eða orkuöryggis. Þetta gerir samningurinn ekki í dag.

Hann þarf að geyma skýr ákvæði um verkferla. Þetta er gríðarlega mikilvægt. Hann þarf að geyma skýr ákvæði um verkferla og ábyrgð á töku ákvarðana, komi til þess að við þurfum að virkja aðstoð Bandaríkjanna samkvæmt samningnum. Það er ekki skýrt í dag. Það ógnar öryggi okkar Íslendinga. Og það er heldur ekki skýrt hversu langur þessi lágmarkstími þarf að vera til að aðstoð berist til landsins.“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tryggjum öryggi mikilvægra innviða

Katrín svaraði og sagði marga þætti sem þyrfti að hafa í huga þegar hugsað er um öryggi borgara hér á landi. 

Það er netöryggi, það er fjarskiptaöryggi. Þegar við horfum á þau átök sem nú eru fyrir hendi held ég að við getum algerlega óhikað metið það svo að sú áhætta felist ekki eingöngu í því sem við getum kallað hefðbundna hernaðarlega þætti heldur ekki síður í netöryggismálum, fjarskiptaöryggi og öðrum þeim þáttum sem lúta að því að við tryggjum öryggi mikilvægra innviða og að því hefur verið unnið,“ sagði forsætisráðherra.

Þorgerður Katrín sneri aftur í ræðustól:

Þetta er athyglisvert. Forsætisráðherra, sem situr í ríkisstjórn sem meðal annars Sjálfstæðisflokkurinn er aðili að, getur ekki sagt skýrt og klárt að það eigi að taka upp varnarsamninginn við Bandaríkin, sem er frá árinu 1951, í ljósi þjóðarhagsmuna, þjóðaröryggis,“ sagði hún og ítrekaði spurningu sína.

Engin ástæða til að sá fræjum efasemda

Forsætisráðherra sagði að sér þætti varasamt hjá formanni Viðreisnar að sá þeim fræjum að varnarsamningurinn standist ekki tímans tönn.

Hann er fyrir hendi. Hann hefur verið uppfærður tvisvar sinnum, 2006 og svo 2016, og það er ekki bara mitt mat sem formanns þjóðaröryggisráðs, sem háttvirtur þingmaður vill helst reyna að láta líta tortryggilega út, heldur mat ríkisstjórnarinnar að á þessu sé ekki þörf, þetta sé algerlega skýrt sem og aðildin að Atlantshafsbandalaginu sem einnig er kveðið á um í þjóðaröryggisstefnunni,“ sagði Katrín og hélt áfram:

Ég held að engin ástæða sé til að koma hér upp og reyna að láta líta svo út að íslensk stjórnvöld séu ekki að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að tryggja öryggi íslenskra borgara um leið og við leggjum það af mörkum sem við getum til að koma í veg fyrir þær hörmungar sem fólkið í Úkraínu stendur frammi fyrir. Við erum að beita okkur með mannúðaraðstoð og öðrum þáttum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert