„Það er gömul saga og ný að miðaldra menn í krísu heillist af ungum konum. Grái fiðringurinn bítur margan góðan drenginn. Fæstir lenda þó í því að grafa lík í framhaldinu. Sjálfur mæli ég ekki með þeirri leið, það er miklu betra að fá sér bara mótorhjól,“ segir Kári Valtýsson, lögmaður og rithöfundur, sem sent hefur frá sér spennusöguna Kverkatak.
Synd væri að segja að söguhetjan í bókinni, lögfræðingur á miðjum aldri, sé sólarmegin í lífinu. Hann er óánægður með sjálfan sig, orðinn hundleiður á vinnunni, hjónabandið er að liðast í sundur og svo verður hann fyrir mjög þungu áfalli þegar ungur sonur hans deyr. Í miðri sorginni knýr grái fiðringurinn dyra. Okkar maður kynnist ungri og glæsilegri konu og líf hleypur skyndilega í lúinn skrokkinn – og þá jafnaldra báða. En þessi óvænti lífsneisti er dýru verði keyptur. Konan reynist vera sannkölluð „femme fatale“ og háskaleg kynnin leiða aumingja manninn út á braut sem hann gat engan veginn búið sig undir. Og áður en hann veit er hann að grafa lík í Leiruvogi. Já, ég sagði lík.
„Fyrir mig sem höfund er samt miklu skemmtilegra að glíma við svona gallaðan mann en mann sem er með allt sitt á hreinu. Ég vil hafa mínar söguhetjur lifandi og breyskar. Vinnuheiti sögunnar var Hundur mannkyns sem segir sitt um uppleggið. Sögumaður er algjör larfur og með allt niðrum sig en samt ekkert illmenni. Alla vega ekki í mínum huga. Alvondir menn eru ekki trúverðugar persónur í bókum, ekkert frekar en algóðir menn,“ segir Kári.
Kári er kvæntur þriggja barna faðir og vinnur á daginn sem lögmaður hjá Fulltingi. Maður hlýtur því að velta fyrir sér hvenær hann hafi tíma til að skrifa.
„Lengi vel fann ég mér tíma á kvöldin og fram á nótt en eftir að þriðja barnið fæddist, 2019, breytti ég um kúrs og fór að vakna eldsnemma á morgnana og skrifa áður en aðrir á heimilinu vakna. Maður þarf að finna tíma fyrir svona lagað þegar maður er ekki fyrir öðrum.“
– Fyrirgefðu, þarft þú ekkert að sofa?
„Jú, jú,“ svarar hann hlæjandi, „en ég slepp með sex tíma. Þá er ég bara góður. Mér líkar mjög vel að skrifa á morgnana, maður er ferskari þá en seint á kvöldin, og reikna með að halda mig við það.“
Það þýðir líka að hann getur endurnýjað kynnin við sjónvarpsdagskrána á kvöldin. „Þegar ég skrifaði á kvöldin var fórnin að sleppa Netflix. Ég var alltaf eins og álfur út úr hól þegar talið barst að nýjustu þáttunum.“
Hann hlær.
– Þú hlýtur að vera mjög skipulagður!
„Já, ég gengst við því.“
Kári kveðst skrifa í skorpum og liggja vel yfir efninu. „Það tekur mig alla jafna lengri tíma að endurskrifa og fínpússa en að skrifa söguna út í upphafi. Ég bý auðvitað að því að hafa farið nokkrum sinnum gegnum þetta ferli og legg alltaf af stað með grófa hugmynd en það breytir ekki því að allt getur gerst á leiðinni og ekkert er skemmtilegra en þegar sagan og jafnvel einstakar persónur taka af mér völdin og fara með mig í allt aðra átt en ég ætlaði. Það er óvissuferð að skrifa skáldsögu sem gerir verkið auðvitað bara enn þá skemmtilegra.“
Nánar er rætt við Kára í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.