Umræðan um ESB-aðild með ólíkindum

Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagssráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagssráðherra. mbl.is/Unnur Karen

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir umræðu um að brýnt sé að Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu vera með miklum ólíkindum.

„Að þessu sinni er því haldið fram að stríðið í Úkraínu breyti öllu. Sagt er að stríðið dragi fram mikilvægi þess að tilheyra varnarstefnu ESB. Þó liggur fyrir við höfum gætt að öllum okkar mikilvægustu hagsmunum í varnar- og öryggismálum með aðildinni að NATO og með varnarsamningnum við Bandaríkin,“ skrifar Bjarni á facebooksíðu sína.

Í morgun sagði formaður Samfylkingarinnar að vegna innrásar Rússa í Úkraínu sé enn meiri ástæða en áður til að Ísland gerist fullgildur aðili að ESB.

„Breytt heimsmynd kallar á dýpri umræðu um málaflokkinn og er margs að gæta í þeim efnum sem snýr að hlutverki stofnana innanlands, forgangsröðun fjármuna, nýjum ógnum og fjölþjóðasamstarfi. Þau mál eru til umræðu í stjórnkerfinu, m.a. í þjóðaröryggisráði, og úr þeim getum við öllum leyst án aðildar að ESB,“ bætir Bjarni við.

Hann segir sjálfsagt að ræða um ESB og stöðu Íslands gangvart sambandinu og kveðst síðastur manna ætla að stöðva þá umræðu, enda sé hún mikilvæg.

„Það er mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir kjarna máls, skiljum söguna og grundvallarhagsmuni þjóðarinnar. Í þeirri umræðu mun Sjálfstæðisflokkurinn leggja áherslu á að hagsmunum okkar er best borgið utan ESB. Það fylgir þeirri sýn að við séum ávallt tilbúin að axla ábyrgð á stöðu mála hér heima fyrir, finna lausnir og leysa úr málum af eigin rammleik á lýðræðislegan hátt í opnu og frjálsu samfélagi, en sópa ekki hvers kyns áskorunum eða viðfangsefnum stjórnmálanna út í ESB hornið í sífellu. Það er uppgjöf fyrir verkefnum samtímans.“



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka