Allar rafskúturnar negldar

Stéttirnar hafa sjaldan verið auðar sem af er ári.
Stéttirnar hafa sjaldan verið auðar sem af er ári. mbl.is/Unnur Karen

Veðurfarið eftir áramót hefur sett svip sinn á samgöngur á landinu. Hopp Reykjavík er með umfangsmikla rafskútustarfssemi eins og fram hefur komið.

Rafskúturnar setja svip á borgarlífið en mbl.is spurði Sæunni Ósk Unnsteinsdóttur, framkvæmdastjóra fyrirtækisins, hvernig sá samgöngumáti hafi gengið í ófærðinni.

Ekki upplifað svona vetur

„Þetta hafði heilmikil áhrif á okkar starfssemi. Við opnuðum haustið 2019 og höfum ekki upplifað svona vetur frá því fyrirtækið hóf rekstur. Eins og fyrir alla þá reyndist áskorun að hreyfa sig um í borgarlandinu,“ segir hún en bætir við að þrátt fyrir allt hafi margar ferðir verið farnar á rafskútum í febrúar. 

Sæunn Ósk Unnsteinsdóttir framkvæmdastjóri Hopp.
Sæunn Ósk Unnsteinsdóttir framkvæmdastjóri Hopp. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við erum fyrst og fremst samgöngufyrirtæki, þess vegna lokuðum við ekki í vetur. Notendur Hopp láta ekki veðrið stoppa sig enda fórum við um 20 þúsund ferðir í febrúar. Notkunin var því mikil miðað við veður og færð.

Við viljum hins vegar ekki að skúturnar séu fyrir og snjóruðningstæki hafa leyfi til að ryðja þeim úr vegi ef þörf krefur. Við vorum því á fullu að sinna þessu til dæmis með því að taka skúturnar upp úr sköflum, passa upp á þær og gæta þess að þær væru ekki fyrir snjómokstri, gangangi og hjólandi vegfarendum,“ segir Sæunn.

„Þetta hefur bara verið skemmtileg áskorun og um leið búum við okkur undir næsta vetur. Skúturnar okkar eru allar negldar enda er þetta heilsárssamgöngumáti.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert