Opnað hefur verið fyrir umferð um Reykjanesbraut, en umferð um hana var lokað um klukkan hálf tíu. Enn er þó krapi og snjóþekja á veginum samkvæmt upplýsingum á vef Vegagerðarinnar.
Samkvæmt viðvörunum Vegagerðarinnar er snjóþekja og hálka á öllum leiðum á Suðvesturlandi, en margir vegir í nágrenni höfuðborgarsvæðisins eru enn lokaðir. Það á við um Kjalarnes, Mosfellsheiði, Þrengsli og Hellisheiði.
Einnig er lokað fyrir umferð yfir Holtavörðuheiði, en Vegagerðin segir erfitt ferðaveður vera á vestanverðu landinu og hvetur vegfarendur að fylgjast með færðakorti áður en lagt er af stað.
Á Vestfjörðum er lokað yfir Klettsháls, Kleifarheiði, Mikladal, Hálfdán, Dynjandisheiði og Gemlufallsheiði.
Hálka eða hálkublettir eru á vegum á Norður- og Austurlandi, en víðast greiðfært. Þó er tekið fram að stórhríð sé á Fjarðarheiði.