Hopp fer af stað með deilibíla

Borgarstjóri fór fyrstu ferðina með Hopp deilibíl í hádeginu.
Borgarstjóri fór fyrstu ferðina með Hopp deilibíl í hádeginu. mbl.is/Arnþór

Hopp Reykjavík, sem rekið hefur rafskútuleigu undanfarin ár, færir nú út kvíarnar og býður upp á bíla sem hægt er að leigja í höfuðborginni með appi fyrirtækisins. 

„Við setjum í dag tíu rafdeilibíla á göturnar en í okkar huga er þetta fyrsti fasi í verkefninu. Þessir tíu bílar eiga að mæla eftirspurnina, safna gögnum, prufukeyra appið og þróa þjónustuna,“ segir Sæunn Ósk Unnsteinsdóttir framkvæmdastjóri Hopp Reykjavíkur. 

Þjónustunni var hleypt formlega af stokkunum á hádegi þegar borgarstjórinn Dagur B. Eggertsson keyrði fyrsta bílinn frá ráðhúsinu og stúdentar við Háskóla Íslands óku frá ráðhúsinu og upp í háskóla. 

Sæunn segir deilibíla vera rökrétt framhald fyrir fyrirtækið en Höldur - Bílaleiga Akureyrar er samstarfsaðili Hopp varðandi bílana. 

Sæunn Ósk og Dagur B. Eggertsson fyrir utan ráðhúsið í …
Sæunn Ósk og Dagur B. Eggertsson fyrir utan ráðhúsið í dag. Arnþór Birkisson

„Hopp hefur alltaf ætlað að fara út í önnur farartæki. Það var alveg ljóst frá byrjun. Það lá beinast við að næsta farartæki yrði bílar. Við fórum og töluðum við þau hjá Höld - Bílaleigu Akureyrar. Okkar áherslur pössuðu mjög vel saman þar sem Höldur - Bílaleiga Akureyrar er með mjög sterka umhverfisstefnu. Við fórum því í samstarf með þeim og Bílaleiga Akureyrar skaffa okkur bílana. Við teljum að tíminn sé núna fyrir bílana eins og þegar við byrjuðum með rafskúturnar fyrir rúmum tveimur árum. Enginn trúði því að þær yrðu svo vinsæll samgöngumáti. Íbúar eru að kalla eftir fjölbreyttari ferðamáta og við erum því mjög spennt að sjá hvernig notendur muni taka þessu.“

Ferlið getur tekið innan við tvær mínútur

Til að byrja með miðast þjónustan við Reykjavík og notast er við sama hugbúnað og Hopp hefur notað varðandi rafskúturnar. 300 krónur kostar að starta bílum og mínútugjaldið er 45 krónur. Sæunn segir að skamman tíma muni taka að komast af stað eftir að viðskiptavinur hefur fundið lausan deilibíl. 

„Þú finnur bílinn í Hopp-appinu. Þá ferðu að bílnum og skannar QR kóða sem er á bílnum. Ef þú hefur ekki leigt bíl hjá okkur áður þá þarftu að sannreyna ökuskírteinið og samþykkja skilmála. Eru það tryggingaskilmálar og hvernig meðhöndla á bílana.  Þegar fólk er komið inn í kerfið hjá okkur þá þarf það ekki að gera þetta nema einu sinni.  Hugbúnaðurinn á að vera það vel þróaður að það á að taka innan við tvær mínútur frá því þú sannreynir ökuskírteinið og þar til þú getur ekið af stað. 

Svo eru bílarnir í borgarlandinu og hægt er að leggja þeim í öll lögleg stæði. Þar á meðal eru gjaldskyld stæði því við erum að þróa búnaðinn þannig að við getum greitt fyrir stöðumælagjald. Auk þess eru þetta rafbílar og eru því með frítt bílastæði í nítíu mínútur.“ 

mbl.is/Arnþór Birkisson

Sæunn Ósk bendir á að þau hafi kynnt sér mjög vel hvernig deilibílaþjónustan hefur gengið í nágrannalöndunum. 

„Við höfum stúderað mikið deilibíla erlendis en deilibílaleigur vaxa mjög hratt í nágrannalöndunum. Síðustu ár hefur einkabílum fækkað mjög í Svíþjóð sem dæmi. M í Svíþjóð, sem er í eigu Volvo, hefur tekið tólf þúsund einkabíla af götunum frá því deilibílar komu til sögunnar þar árið 2018. Bílastæði sem fara undir tólf þúsund bíla samsvara átján fótboltavöllum. Þetta er því stórt samgöngumál fyrir utan að auðvelda fólki að lifa bíllausum lífsstíl eða eiga einn bíl í stað tveggja,“ segir Sæunn Ósk Unnsteinsdóttir í samtali við mbl.is.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert