Ekki er útlit fyrir að aftur verði gripið til sóttvarnaaðgerða innanlands þrátt fyrir að kórónuveirusmitum hafi haldið áfram að fjölga verulega undanfarið. Yfirlæknir á sviði sóttvarna segir að útlit sé fyrir að faraldurinn sé á niðurleið en erfitt sé að tala um hjarðónæmi.
„Stefnan núna virðist vera að reyna að bíða þetta af okkur. Vonandi höfum við náð toppi og kúrvan er að fara niður. Hún er gríðarlega smitandi þessi veira; hún er úti um allt. Til þess að tempra eða stöðva útbreiðsluna þyrftum við að grípa mjög harkalega inn í. Við vorum með takmarkanir en það var samt töluverð útbreiðsla,“ segir Guðrún Aspelund, yfirlæknir á sviði sóttvarna hjá embætti landlæknis, í samtali við mbl.is.
Um stöðuna á faraldrinum segir Guðrún að smitkúrvan virðist vera á niðurleið en staðreyndin sé samt sem áður að nú séu tekin færri sýni en áður og því sé samanburðurinn erfiður. Hlutfall jákvæðra sýna hefur undanfarið verið mjög hátt eða um 50% en æskilegt er talið að það hlutfall sé undir 5%.
„Þetta eru svolítið ófullkomin gögn sem við erum með núna miðað við áður. Ef maður miðar bara við það sem hefur verið í gangi þá er hugsanleg vísbending um að kúrvan sé að fara niður. Það er viðbúið að það verði hægt en maður veit aldrei. Það getur tekið þrjár til fjórar vikur að komast niður ef við höldum áfram á niðurleið,“ segir Guðrún.
Tæp 46% þjóðarinnar hafa greinst smituð af kórónuveirunni frá upphafi faraldurs. Þá eru líkur á að fleiri hafi smitast en ekki geinst.
Eru einhverjar líkur á því að við séum að fara að ná hjarðónæmi?
„Ég held að það sé mjög óljóst og ég held að það sé erfitt að tala um hjarðónæmi; hvenær það myndi nást og hvað það þýðir. Hjarðónæmi er þannig að það þarf einhver verulegur hluti af þýðinu, þ.e. þjóðinni, að vera ónæmur og það er þá miðað við það að fólk sé ekki að smitast,“ segir Guðrún.
Hún bendir á að þó að Íslendingar hafi náð góðum árangri í bólusetningu gegn Covid-19 og margir hafi þegar smitast þá smitist fólk þrátt fyrir að vera bólusett. Bólusetningin veiti samt sem áður vernd gegn alvarlegum veikindum og sjúkrahúsinnlögnum.
„Það er svolítið erfitt að tala um hvernig sé hægt að ná einhverju sem kallað er hjarðónæmi. Svo getur veiran breyst og svo dvínar ónæmið með tímanum. Mér finnst erfitt að henda reiður á því hvað það þýðir [að ná hjarðónæmi] og hvort það sé yfirleitt hægt.“
Guðrún bendir á að þrátt fyrir að öllum aðgerðum hafi verið aflétt á Íslandi og að sama staða sé uppi víða annars staðar þá geisi enn heimsfaraldur og að lágt bólusetningarhlutfall víða erlendis gæti komið heimsbyggðinni í koll.
„Ef veiran getur áfram grasserað þar þá getur hún stökkbreyst og það geta komið ný afbrigði. Við getum náttúrulega fengið þau en við verðum þá auðvitað að treysta á það ónæmi sem við höfum – bólusetningu og sýkingar – til þess að verja fólk fyrir veikindum. Við verðum líka að fylgjast með þessum dauðsföllum,“ segir Guðrún og á þar við þann fjölda sem hefur fallið frá úr Covid-19 á síðustu mánuðum.
Þá minnir Guðrún Íslendinga á að sýna samfélagslega ábyrgð í faraldrinum.
„Við erum ekki með takmarkanir þannig að við reiðum okkur á það að fólk taki þátt og viðhafi persónulegar sóttvarnir, haldi sig til hlés eða í einangrun ef það er með Covid. Það er líka gott til þess að forðast allar pestir, til dæmis inflúensuna.“