Stóran búrhval rak á land við Bessastaði

Hvalinn rak á land við Bessastaði á Heggstaðanesi líklegast á …
Hvalinn rak á land við Bessastaði á Heggstaðanesi líklegast á föstudaginn. Ljósmynd/Guðný Helga Björnsdóttir

Stóran búrhval rak á land við bæinn Bessastaði á Heggstaðanesi við Hrútafjörð á föstudaginn. Guðný Helga Björnsdóttir, bóndi á bænum, segir í samtali við mbl.is að hræið sé enn frekar heillegt og að lykt sé ekki farin að dreifast yfir bæinn, en hræið er aðeins 100-200 metra frá bænum.

„Við höfum slegið á að hann sé um 15 metra langur,“ Segir Guðný spurð um stærð dýrsins. Þau urðu fyrst vör við hvalinn á föstudaginn, en þar á undan hafði verið vont veður svo lítið hafði sést niður í fjöruna. Hún segir þó líklegast að hann hafi komið þá um nóttina. „Hann var líklega nýlentur, en alveg steindauður.“

Guðný segir hvalinn ekki fastan og að hann gæti rekið …
Guðný segir hvalinn ekki fastan og að hann gæti rekið aftur út í stórsjó. Ljósmynd/Guðný Helga Björnsdóttir

Guðný segir að hvalurinn sé ekki alveg fastur og að á flóði þá snúist hann í fjörunni. Þá sé hann fyrir neðan kletta svo ómögulegt sé að reyna að koma honum eitthvað á land. Segist hún vonast til að hægt verði að draga hræið aftur út, en Guðný segir hvalinn aðeins farinn að bólgna út og því viðbúið að stæka lykt fari að bera frá honum.

Komi hins vegar norðan bálviðri segir Guðný líklegt að hvalinn gæti rekið aftur út á sjó og þá sé hann hættulegur fyrir sjófarendur ef hann mari í kafi og sjáist illa.

Síðar í dag segist Guðný eiga von á starfsmönnum frá annað hvort MAST eða Hafrannsóknarstofnun til að taka sýni úr dýrinu.

Jóhann og Guðný Helga, bændur á Bessastöðum á Heggstaðanesi.
Jóhann og Guðný Helga, bændur á Bessastöðum á Heggstaðanesi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Spurð hvort hún áformi að taka tennurnar úr dýrinu, en búrhvalstennur kunna að vera verðmætir gripir, segir Guðný að þau ætli fyrst að átta sig á hvernig förgun á dýrinu verði. Vísar hún meðal annars í verklagsreglur um hvalreka þar sem segi að nýti landeigendur þau dýr sem reki á land geti kostnaður við förgun fallið á landeigendur. Þá segist hún sjálf lítið spennt að ná tönnunum. „Persónulega ætla ég ekki að fara að kafa á eftir þeim,“ segir hún og hlær og bætir svo við: „Mér fannst nógu ógeðslegt að standa 10 metra frá honum.“ Hún tekur þó fram að það gæti vel verið að einhver sé hugaðri en hún, en hún og eiginmaður hennar, Jóhann, hafa þegar fengið nokkrar fyrirspurnir um tennurnar.

Guðný segir að þau hafi gróflega áætlað að búrhvalurinn sé …
Guðný segir að þau hafi gróflega áætlað að búrhvalurinn sé um 15 metrar að lengd. Ljósmynd/Guðný Helga Björnsdóttir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert