Vilja þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild að ESB

Frá Brussel, þar sem höfuðstöðvar Evrópusambandsins eru.
Frá Brussel, þar sem höfuðstöðvar Evrópusambandsins eru. mbl.is/Hjörtur J. Guðmundsson

Þingflokkar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata kynntu í dag þingsályktun þess efnis að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild að Evrópusambandinu fyrir árslok 2022. 

Í tilkynningu kemur fram að það sé sameiginleg sýn þessara þingflokka að málið sé af slíkri stærðargráðu að leita eigi leiðsagnar þjóðarinnar um framhald þess.

Þar segir að auk röksemda sem lúti að efnahagslegum stöðugleika, mannréttindum og lýðræði hnígi einnig sterk rök að því að Ísland taki afstöðu til aðildar að Evrópusambandinu vegna nýs veruleika í varnar- og öryggismálum og hlutverks Evrópusambandsins í þeim efnum.

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, og Halldóra Mogensen, þingflokksformaður Pírata, eru fyrstu flutningsmenn tillögunnar. Þau segja löngu tímabært að eiga samráð við almenning um þetta stóra mál enda séu miklir hagsmunir í húfi.

Fyrir tæplega tveimur vikum birtist þjóðarpúls Gallup fyrir mars, en þar kom fram að 47% aðspurðra væru hlynntir aðild Íslands að Evrópusambandinu, en þriðjungur mótfallinn. Er það talsvert hærra hlutfall en þegar Gallup spurði að þessu fyrir um átta árum, en árið 2014 voru 37% aðspurðra hlynntir aðild að ESB meðan 36% var mótfallinn.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert