Bæta þurfi frumvarp um afglæpavæðingu

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra.
Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra segir að útkljá þurfi ákveðin atriði sem ágreiningur hefur verið um svo að frumvarp um afglæpavæðingu neysluskammta nái fram að ganga.

Ráðherrann var spurður eftir ríkisstjórnarfund í dag, hvort málið væri enn á dagskrá þar sem frumvarpið var ekki á endurskoðaðri þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar.

„Þetta mál hefur áður komið fyrir þingið en ekki hlotið brautargengi. Það hafa ákveðin atriði verið í ágreiningi í því máli, til að mynda skilgreining á neysluskömmtum í samhengi við önnur skaðaminnkandi úrræði og forvarnir,“ sagði Willum.

Starfshópi ætlað að bæta frumvarpið

Hann hefur skipað starfshóp sem er ætlað að ráða bót á framangreindu vandamáli. Sá hópur hefur hafið störf en mun ekki ljúka svo viðamiklu máli fyrir 1. apríl.

„Ég held það sé mjög til bóta fyrir þetta mál að það sé vel tekið utan um það. Þetta er viðkvæmur hópur sem þarf heilbrigðisþjónustu og sem við þurfum að styðja. Þessi hópur mun kanna þetta og mun meðal annars leita fulltingis nefndar um stefnumótun í fíkniefnamálum.

Við munum kanna hver staðan er á notendum hér í þessum hópi og eins og ég segi þá held ég að það séu meiri líkur á því að koma með bætt frumvarp að hausti, sem eigi þá meiri möguleika í þinginu og við gerum hlutina betur. Við þurfum að vanda okkur við þetta.“

Spurður hvort honum finnist vera eining um málið innan ríkisstjórnarinnar segir hann að það séu meiri líkur á því, bæði innan ríkisstjórnarinnar og á Alþingi, ef frumvarpið verði bætt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert