„Óbyggð víðerni eru einkennandi fyrir umtalsverðan hluta íslensks landslags. Á það meðal annars við um stór landsvæði á miðhálendinu,“ segir í ágripi af skýrslu sem Wildland Research Institute (WRi) gerði fyrir Náttúruverndarsamtök Íslands, Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi, Skrauta náttúruverndarsamtök og Unga umhverfissinna.
Sérfræðingar Leeds-háskóla önnuðust kortlagninguna undir forystu dr. Stephens Carvers, forstöðumanns WRi. Hann kynnti skýrsluna í sal Þjóðminjasafnsins í gær. Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, ávarpaði fundinn auk fleiri ræðumanna.
Í skýrslunni segir að það að standa vörð um og viðhalda óbyggðum víðernum sé efst á lista útfærðra markmiða Rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um líffræðilegan fjölbreytileika fyrir árið 2030. Þá er minnt á að víðernaskrá Evrópusambandsins frá 2013 sýndi að tæplega 43% af „villtustu“ víðernum Evrópu var að finna á Íslandi.
Víðernagæði voru greind fyrir miðhálendi Íslands. Greiningin var notuð til að skilgreina alls 17 víðernasvæði sem standast skilgreiningu Alþjóðanáttúruverndarsambandsins (IUCN) á óbyggðum víðernum (flokkur lb). Einnig skilgreiningu Wild Europe fyrir víðerni, en hún útfærir og lagar fyrrnefndu skilgreininguna að Evrópu. „Þetta er sagt með þeim fyrirvara að tekið sé á beit og utanvegaakstri á snjó og ís á svæðunum sem skýrslan tilgreinir,“ segir í ágripi.
Nánar má lesa um málið í Morgunblaðinu í dag.