Við suðumark í þingsal

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þingmenn stjórnarandstöðunnar gagnrýndu mjög í hádeginu tillögu Birgis Ármannssonar þingforseta um lengri þingfund í dag og sögðu stjórnleysi ríkisstjórnar og þingforseta um að kenna. Steininn tók úr þegar Birgir neitaði að endurtaka atkvæðagreiðslu um lengri þingfund.

29 þingmenn greiddu atkvæði með tillögunni en 21 gegn henni. Þingforseti varð síðan ekki við beiðni um endurtekna atkvæðagreiðslu.

„Þegar beðið er um endurtekningu á atkvæðagreiðslu hafa forsetar einfaldlega orðið við því,“ sagði Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, og hélt áfram:

„Nema forseti vilji fela þá staðreynd að stjórnarliðar spruttu hér úr sætum sínum strax og þeir gátu til að þurfa ekki að horfa framan í fólkið sem það ætlar að láta sjá eitt um lýðræðislega umræðu í þessum sal,“ bætti Andrés Ingi við en stjórnarandstöðuþingmenn hafa gagnrýnt áhugaleysi stjórnarliða í umræðum.

Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata.
Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Andrés benti til að mynda á að Guðlaugur Þór Þórðarson væri eini ráðherrann í þingsalnum:

„Forseti Alþingis á að standa með öllu Alþingi, ekki stjórnarliðunum sem geta ekki einu sinni setið á rassinum í gegnum eina einustu atkvæðagreiðslu.“

Eftir fundahlé tilkynnti Birgir að rétt hefði verið að endurtaka atkvæðagreiðsluna og bætti við að þingfundur yrði ekki lengri en til klukkan átta í kvöld.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert