Brotahópar stökkva á tækifærin sem stríð skapar

„Það skiptir mjög miklu máli að það verði vitundarvakning um …
„Það skiptir mjög miklu máli að það verði vitundarvakning um þetta,“ segir Karl Steinar. mbl.is/Eggert

Hætta á að óprúttnir aðilar nýti sér neyð fólks og komi því í mansal eykst í takt við stríðari flóttamannastraum vegna stríðsins í Úkraínu. Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn alþjóðasviðs ríkislögreglustjóra, segir mikilvægt að fólk hafi augun opin fyrir vísbendingum um mansal hér á landi.

„Það skiptir mjög miklu máli að það verði vitundarvakning um þetta. Við lifum í rosalega góðu og vernduðu umhverfi svo við eigum oft svolítið erfitt með að setja okkur í spor þeirra sem ekki eru í slíkum aðstæðum,“ segir Karl Steinar í samtali við mbl.is.

Europol hefur sent út viðvaranir til ríkja Evrópu vegna aukinnar hættu á mansali enda sýnir reynslan að hún eykst í takt við fjölgun flóttafólks.

„Brotahóparnir sjá tækifærin í erfiðleikunum og stökkva á þau,“ segir Karl Steinar.

Nýta sér bága stöðu heillar þjóðar

Þar sem mörg ríki hafa ákveðið að taka á móti fjölda úkraínskra flóttamanna er til staðar hætta á skjalafalsi, þ.e. því að brotahópar láti fólk fá fölsuð úkraínsk skjöl til þess að koma þeim inn í landið, að sögn Karls Steinars. Hann nefnir einnig að hætta sé á að óprúttnir aðilar heilli fólk með gylliboðum.

„Meirihluti flóttamannanna núna eru konur með börn vegna þess að karlmennirnir eru flestir í stríði. Þá er verið að bjóða þeim aðstoð við eitthvað en þau átta sig kannski ekki á því hvað felst í boðinu. Þannig að það er verið að notfæra sér stöðuna sem einstaklingar eru í.“

Mikill fjöldi fólks hefur þurft að flýja Úkraínu að undanförnu …
Mikill fjöldi fólks hefur þurft að flýja Úkraínu að undanförnu vegna innrásar rússneska hersins í landið. Því miður nýta óprúttnir aðilar sér þessa neyð. AFP

Karl Steinar telur „algjörlega bráðnauðsynlegt“ að hafa aukna hættu á mansali í huga samhliða því að allt sem hægt sé að gera til þess að aðstoða flóttafólk sé gert.

„Í okkar huga er þetta dæmi um það hvernig því miður þetta umhverfi okkar stundum er: Að það séu til einstaklingar sem vilja notfæra sér þessa bágu stöðu sem heil þjóð er í núna sér til ávinnings.“

Nauðungarvinna og kynlífsmansal mest áberandi hérlendis

Dómsmálaráðuneytið gaf á dögunum út upplýsingaefni um vísbendingar um mansal vegna stöðunnar. Þar eru nefnd dæmi um hegðun, lífskjör o.fl. sem geta gefið til kynna að einstaklingur sé þolandi mansals. Slíkar vísbendingar eru til að mynda að manneskja þekki ekki réttindi sín, tjái sig ekki eða á þvingaðan hátt, hafi ýmist engin eða fölsuð persónuskilríki, virðist búa á vinnustað eða við óeðlilegar aðstæður, hafi ekki yfirráð yfir launum sínum o.s.frv.

Karl Steinar segir mikilvægt að fólk sé vakandi fyrir þeim vísbendingum sem nefndar eru í upplýsingaefni dómsmálaráðuneytisins og hafi samband við Neyðarlínuna (112) ef grunur um að einstaklingur sé fórnarlamb mansals vaknar.

Hér á landi hefur nauðungarvinna og svokallað kynlífsmansal verið mest áberandi, að sögn Karls Steinars. Hann segir að lögreglunni hér á landi hafi gengið fremur hægt í mansalsmálum.

Hvers vegna er það?

„Þetta eru bæði erfið mál og síðan höfum við verið svolítinn tíma að aðlaga réttarkerfið að þeim breytingum sem hafa verið gerðar erlendis, en ég vil meina að umgjörðin sé komin í lag,“ segir Karl Steinar.

„Það kallar auðvitað líka á samvinnu við þá sem við teljum að séu þolendurnir. Þeir hafa oft ekki alveg sömu sýn á stöðuna og við.“

Hér má nálgast upplýsingaefni dómsmálaráðuneytisins um mansal á þremur tungumálum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert