Það sem enn má ekki segja upphátt

Biden og Johnson forðast að segja að þeir vilji annan …
Biden og Johnson forðast að segja að þeir vilji annan mann í brúnni í Moskvu, á sama tíma og þeir kalla Pútín stríðsglæpamann. Kasparov kallar eftir því að Biden hætti að spila diplómatíska leiki við fjöldamorðingja. AFP/Míkhaíl Klímentjev

„Ein­ræðis­herra, sem hef­ur ein­sett sér að end­ur­reisa heimsveldi, mun aldrei útmá ást fólks á frels­inu. Grimmd mun aldrei mala niður vilj­ann til að vera frjáls. Í Úkraínu fæst aldrei sig­ur fyr­ir Rúss­land. Því að frjálst fólk neit­ar að lifa í heimi von­leys­is og myrk­urs.“

Svo mælti Joe Biden Banda­ríkja­for­seti und­ir lok ræðu sinn­ar í Var­sjá, þar sem hann ávarpaði fjölda manna sem sam­an voru komn­ir til að hlýða á leiðtoga frjálsa heims­ins.

„Við mun­um eiga öðru­vísi framtíð, bjart­ari framtíð, sem reist er á lýðræði og gild­um. Á von og ljósi. Á vel­sæmi, virðingu og frels­inu í mögu­leik­un­um,“ bætti for­set­inn við.

En ávarpið var ekki al­veg á enda. Vel má ímynda sér að uppi hafi orðið fót­ur og fit í Hvíta hús­inu, er for­set­inn ákvað að bæta nokkru við ávarpið sem ekki hafði verið skrifað á blaðið, áður en hann kvaddi viðstadda:

„Í Guðs bæn­um, þessi maður get­ur ekki verið áfram við völd.“

Líkt við ræðu Reag­ans í Berlín

Um­mæl­in þóttu und­ir eins gefa til kynna mikla stefnu­breyt­ingu banda­rískra stjórn­valda. Eins kon­ar hvin­ur fór um Twitter, þar sem blaðamenn og stjórn­mála­skýrend­ur vörpuðu hver á fæt­ur öðrum ljósi á þessi um­mæli og mögu­legt sögu­legt gildi þeirra. Sums staðar mátti jafn­vel sjá þeim líkt við fræg orð Reag­ans, sem hann beindi til Gor­bat­sjovs í Berlín fyr­ir 35 árum: „Brjóttu niður þenn­an múr.“

En um­mæl­in fengu ekki að standa lengi. Eða öllu held­ur merk­ing þeirra. Emb­ætt­ismaður frá Hvíta hús­inu var nefni­lega fljót­ur að stíga fram eft­ir að ræðunni lauk. Full­yrti sá að for­set­inn hefði ekki raun­veru­lega átt við það að Pútín væri ekki leng­ur vært á valda­stóli.

„Mein­ing for­set­ans var sú að það mætti ekki leyfa Pútín að beita valdi sínu gagn­vart ná­grönn­um sín­um eða á svæðinu,“ höfðu fréttamiðlar eft­ir emb­ætt­is­mann­in­um, en nafni hans var haldið leyndu. „Hann var ekki að tala um völd Pútíns í Rússlandi, eða stjórn­ar­skipti.“

Með öðrum orðum: For­set­inn meinti ekki það sem hann sagði, ef marka má Hvíta húsið.

Stjórn­völd leggja sig í líma

Ljóst má vera að dreg­in hef­ur verið sú lína beggja vegna Atlants­hafs­ins, eða að minnsta kosti í Washingt­on og Lund­ún­um, að ekki megi ýja að nokk­urs kon­ar stjórn­ar­skipt­um í Kreml.

Þannig hafa stjórn­völd bæði í Banda­ríkj­un­um og Bretlandi lagt sig í líma við að gefa ekki í skyn að þau vilji ann­an mann í brúnni í Moskvu, jafn­vel þótt Biden sjálf­ur hafi til að mynda kallað hann stríðsglæpa­mann. Það hef­ur breski for­sæt­is­ráðherr­ann Bor­is John­son einnig gert, auk þess sem hann hef­ur líkt hegðun Pútíns við síðustu ár serbneska stríðsglæpa­manns­ins Slo­bod­ans Mi­losevic á valda­stóli.

Samt sem áður hef­ur Down­ingstræti einnig þurft að bera svipuð um­mæli til baka. Var það gert hinn 28. fe­brú­ar, aðeins nokkr­um dög­um eft­ir inn­rás­ina, þegar talsmaður for­sæt­is­ráðherr­ans sagði viðskiptaþving­an­ir Vest­ur­landa til þess gerðar að steypa Pútín af stóli.

„Aðgerðirn­ar sem við erum að kynna, sem stór­ir hlut­ar heims­ins eru að kynna, eru til að fella Pútín­stjórn­ina,“ tjáði talsmaður Down­ingstræt­is blaðamönn­um með skil­yrði um eig­in nafn­leynd.

Sam­dæg­urs neitaði talsmaður­inn því að stjórn­ar­skipti í Kreml væru meg­in­mark­miðið. „Við sækj­umst ekki eft­ir neinu á borð við stjórn­ar­skipti. Það sem við erum að tala skýrt um hér er hvernig við stöðvum Rúss­land frá því að reyna að sölsa und­ir sig lýðræðis­ríki. Það hafa all­an tím­ann verið skila­boðin.“

Snert­ur maður hreyfður

Garrí Kasparov, fyrr­ver­andi heims­meist­ari í skák, sem lengi hef­ur mót­mælt setu landa síns á valda­stóli í Kreml, gagn­rýndi Biden fyr­ir að reyna að hverfa frá um­mæl­um sín­um.

„Eng­inn leiðtogi í hinum frjálsa heimi ætti að hika við að segja það hreint út að heim­ur­inn væri mun betri staður ef Pútín væri ekki leng­ur við völd í Rússlandi. Góð aðferð til að koma því til leiðar er að segja ein­mitt það,“ skrifaði Kasparov um málið á Twitter.

„Ein­ræðis­herr­ar merja niður jafn­vel minnsta merki um and­stöðu, svo þeir geti sagt: „Ef ekki ég, hver þá?“ Að tutt­ugu árum liðnum þá virk­ar þetta. En við verðum öll að ímynda okk­ur Rúss­land eft­ir Pútín, svo það geti gerst. Eng­in normalíser­ing, eng­ir samn­ing­ar, ekk­ert. Hann er ólög­mæt­ur og hann er stríðsglæpa­maður,“ skrifaði skák­meist­ar­inn.

„Biden er ekki Trump, sem þarf þýðanda frá ensku yfir í ensku! Eng­inn ein­ræðis­herra er lög­mæt­ur. Ekki taka eitt­hvað til baka þegar þú hef­ur rétt fyr­ir þér og ert í rétti. Ekki spila diplóma­tíska leiki við fjölda­morðingja.“

Núna er ekki tím­inn fyr­ir spuna

Tom Nichols, stjórn­mála­skýr­andi og pró­fess­or við Naval War Col­l­e­ge í Banda­ríkj­un­um, skrif­ar á vef tíma­rits­ins Atlantic og bend­ir á að Biden eigi það gjarn­an til að tala beint frá hjart­anu, sem sé geðþekk­ur eig­in­leiki, að minnsta kosti gagn­vart þeim sem styðja hann og dá.

Seg­ir hann for­set­ann þannig reglu­lega gera sig sek­an um þá skyssu stjórn­mála­manna, að mæla óvar­lega jafn­vel þótt þeim rat­ist satt á munn.

„Þetta var ekki stund­in fyr­ir slíkt augna­blik, og jafn­vel þeir sem telja að Biden hafi sýnt trausta for­ystu í þess­ari krísu ættu að viður­kenna að um­mæli for­set­ans voru óþvinguð mis­tök (e. un­forced err­or).“

Hann held­ur áfram og seg­ir að með hverj­um deg­in­um sem stríð Rúss­lands gegn Úkraínu dregst á lang­inn verði áfram fyr­ir hendi hætt­an á átök­um milli aust­urs og vest­urs sem geti stefnt heim­in­um í voða.

„Pútín, hvers strategísku mark­mið eru nú fall­in sam­an, get­ur enn myrt fleiri Úkraínu­menn í reiði sinni yfir niður­læg­ing­unni. Hann gæti reynt að egna Atlants­hafs­banda­lagið til átaka. Eitt­hvert þeirra fjög­urra kjarn­orku­velda sem eiga hlut í átök­un­um gæti gert mis­tök eða orðið mis­skiln­ingi að bráð. Núna er ekki tím­inn fyr­ir spuna.“

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert