Ásdís Ásgeirsdóttir með viðtal ársins

Ásdís hreppti verðlaun fyrir viðtal ársins.
Ásdís hreppti verðlaun fyrir viðtal ársins. Ljósmynd/Blaðaljósmyndarafélag Íslands

Ásdís Ásgeirsdóttir, blaðamaður á Morgunblaðinu, hlaut Blaðamannaverðlaun Blaðamannafélagsins fyrir viðtal ársins. 

Viðtalið tók hún við Óla Björn Pétursson, þar sem hann greinir frá grófu kynferðisofbeldi er hann varð fyrir á unglingsaldri.

Í rökstuðningi er frásögnin talin sláandi en afar upplýsandi enda sæki hún á lesandann sem fái raunsanna lýsingu á því hvernig unglingur er ginntur af barnaníðingi. Var Óla haldið með hótunum og ofbeldi en tókst honum síðar að losa sig og endurheimta líf sitt.

Fréttaskýringar um „skæruliðadeild“ Samherja rannsóknarblaðamennska ársins 

Arnar Þór Ingólfsson og Þórður Snær Júlíusson, blaðamenn á Kjarnanum, fengu verðlaun fyrir rannsóknarblaðamennsku ársins eftir fréttaskýringar sínar þar sem ljóstrað var upp um óeðlilega hagsmunagæslu svonefndrar skæruliðadeildar Samherja, að því er segir í rökstuðningi. „ Þær sýndu hvernig fulltrúar þessa stórfyrirtækis reyndu til að mynda að hafa áhrif á formannskjör í stéttarfélagi blaðamanna og kjör á lista Sjálfstæðisflokksins í heimakjördæmi fyrirtækisins,“ segir þar enn fremur.

Sunna Karen Sigurþórsdóttir, fréttamaður á Stöð 2, Bylgjunni og Vísi, hlaut þá verðlaun fyrir umfjöllun ársins. Fjallaði hún um tilefnislausar lífslokameðferðir af hálfu læknis á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. „Sunna Karen hóf umfjöllun um málið, fylgdi því eftir og varpaði ljósi á umfang þess. Málið er til rannsóknar hjá lögreglu, sem og hjá landlækni og í heilbrigðisráðuneytinu,“ segir í rökstuðningi.

Loks hlaut Aðalsteinn Kjartansson, blaðamaður á Stundinni, blaðamannaverðlaun ársins. Segir í rökstuðningi Blaðamannafélagsins að þau hafi hann hlotið meðal annars fyrir vandaða og afhjúpandi umfjöllun um fjölda mála, svo sem greiningu á eignum og eignatengslum íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja sem dráttur var á hjá ráðuneyti málaflokksins.

Ljósmynd/Blaðaljósmyndarafélag Íslands
Arnar Þór Ingólfsson og Þórður Snær Júlíusson, blaðamenn á Kjarnanum, …
Arnar Þór Ingólfsson og Þórður Snær Júlíusson, blaðamenn á Kjarnanum, fengu verðlaun fyrir rannóknarblaðamennsku ársins. Ljósmynd/Blaðaljósmyndarafélag Íslands
Sunna Karen Sigurþórsdóttir, fréttamaður á Stöð 2, Bylgjunni og Vísi, …
Sunna Karen Sigurþórsdóttir, fréttamaður á Stöð 2, Bylgjunni og Vísi, hlaut verðlaun fyrir umfjöllun ársins. Ljósmynd/Blaðaljósmyndarafélag Íslands
Aðalsteinn Kjartansson fékk blaðamannaverðlaun ársins.
Aðalsteinn Kjartansson fékk blaðamannaverðlaun ársins. Ljósmynd/Blaðaljósmyndarafélag Íslands
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka