Athugasemdir eru boðaðar úr ýmsum áttum við umhverfismatsskýrslu Landsnets vegna áforma um Blöndulínu 3, að hluta til um aðra leið en áður var áformuð. Þá telja bæjarfulltrúar á Akureyri að loftlína þrengi að þróun byggðar þar og óska eftir rökstuðningi fyrir því að hætt var við jarðstreng innan bæjarins.
Í aðalvalkosti Landsnets í umhverfismatsskýrslu vegna lagningar Blöndulínu 3 frá Blönduvirkjun til Akureyrar er gert ráð fyrir að línan fari um svokallaða Kiðaskarðsleið. Það dregur úr áhrifum á ákveðnu svæði í Húnavatnssýslu og sérstaklega Skagafirði en á móti fer línan um nýtt land þar sem ekki eru loftlínur fyrir. Mælist breytingin misjafnlega fyrir meðal bænda og annarra landeigenda.
„Öll þessi möstur munu rýra verðgildi jarðarinnar mjög mikið, hún verður óseljanleg,“ segir María Ingiríður Reykdal, bóndi á Starrastöðum í Lýtingsstaðahreppi hinum forna, en línan mun liggja langsum og þversum um land jarðarinnar. Sigursteinn Bjarnason, bóndi á Stafni í Svartárdal, segir engan hrifinn af því að fá línuna um sitt land en tekur fram að sér finnist málið hafa verið leyst með besta móti, úr því línan þurfi að koma.
Stjórnendur Akureyrarbæjar telja að loftlína sem liggja mun beint að tengivirkinu á Rangárvöllum þrengi að möguleikum til þróunar byggðar. Nú á til dæmis að fara að byggja Móahverfi stutt frá línustæðinu. Bærinn er landlítill og má illa við skerðingum á byggingarlandi. Halla Björk Reynisdóttir, forseti bæjarstjórnar, segir bæinn hafa óskað eftir því að fá upplýsingar frá Landsneti um það hvað liggi til grundvallar þeirri ákvörðun að falla frá lagningu jarðstrengs við þéttbýlið og leggja í staðinn loftlínu.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.