Samtals höfðu 180.726 greinst með Covid-19 á Íslandi 28. mars. Fyrir áramót 2022 greindust samtals 30.487 manns með Covid-19 hérlendis en eftir áramót hafa greinst 150.239 manns. Endursmit hefur greinst hjá 3.972. Af endursmitum hafa sex manns greinst þrisvar sinnum en aðrir tvisvar sinnum.
Þetta kemur fram á vef landlæknis þar sem farið er yfir stöðuna í kórónuveirufaraldrinum.
Endursmit er skilgreint þannig að sami einstaklingur greinist tvisvar og 60 dagar eða meira eru á milli greininga.
„Ef tekið er einfalt hlutfall af þeim 30.487 sem smituðust fyrir áramót (fyrir ómíkron) hafa 3.560 eða 11,7% smitast aftur eftir áramót í ómíkron bylgju. Þá höfðu 246 smitast tvisvar fyrir áramót eða tæp 1% af öllum smituðum þá. Frá áramótum þar til nú hafa 166 smitast tvisvar, eða 0,1%. Eingöngu er miðað við staðfest smit (PCR eða hraðpróf hjá viðurkenndum sýnatökustöðum hérlendis),“ segir á vef landlæknis.
Af þeim sem greindust tvisvar lögðust 13 inn á Landspítala með eða vegna Covid-19 en fjórir lögðust inn vegna Covid-19. Allir fjórir lögðust inn vegna seinni sýkingar en þar af var einn sem lagðist inn bæði vegna fyrri og seinni sýkingar.
Um 80% landsmanna eru fullbólusett og tæp 70% fullorðinna hafa fengið örvunarskammt. Verið er að skoða endursmit m.t.t. bólusetningarstöðu.